Selfyssingar á siglingu upp í 1. deild

Bjarni Jóhannsson er kominn með Selfyssinga í afar góða stöðu.
Bjarni Jóhannsson er kominn með Selfyssinga í afar góða stöðu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfyssingar eru komnir í afar góða stöðu á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu eftir sigur á Víkingum frá Ólafsvík, 2:1, á Selfossi í kvöld.

Þeir náðu með þessu níu stiga forskoti á Ólafsvíkingana sem eru í öðru sæti og staðan vænkaðist enn frekar með því að Austfirðingarnir í KFA töpuðu mjög óvænt fyrir botnliði Reynis í Sandgerði í kvöld, 3:1.

Fyrir vikið stefnir nú allt í að Selfyssingar sigli hraðbyri upp í 1. deildina en í staðinn er komin hörð sex liða barátta um hverjir muni fylgja þeim upp. Eftir úrslit 15. umferðarinnar sem lauk í kvöld munar aðeins þremur stigum á öðru og sjöunda sæti deildarinnar.

Selfoss er með 32 stig, Víkingur Ólafsvík 26, Völsungur 26, KFA 25, Höttur/Huginn 24, Þróttur Vogum 23 og Haukar 23 stig.

Fallbaráttan virðist ætla að standa milli hinna fimm liðanna en Kormákur/Hvöt er með 18 stig, KFG 16, Ægir 15, KF 12 og Reynir er kominn með 11 stig eftir sigurinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert