Valur er úr leik í Sambandsdeild karla í knattspyrnu eftir 4:1 tap gegn St. Mirren í Paisley í Skotlandi í kvöld.
Þetta var seinni leikur liðanna í 2. umferð í Sambandsdeildinni en fyrri leikurinn á Hlíðarenda fór 0:0. St. Mirren vann því einvígið samanlagt 4:1 og mætir Brann í 3. umferð Sambandsdeildarinnar.
Leikmenn St. Mirren höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik en þeir reyndu fyrst og fremst langa bolta fram eða sækja upp kantana og koma með sendingar fyrir.
Á 16. mínútu leiksins fékk St. Mirren hornspyrnu en hana tók Mark O‘Hara. Spyrnan hans fór á fjarsvæðið og þar var Shaun Rooney einn og yfirgefinn og nýtti sér það heldur betur og stangaði boltann í netið, 1:0.
Strax í næstu sókn fengu Valsmenn tækifæri til að jafna metin en Jónatan Ingi Jónsson átti þá misheppnað skot sem fór í varnarmann og beint á Tryggva Hrafn Haraldsson sem var í frábæru færi en Ellery Balcombe kom vel út á móti Tryggva og varði skotið frá honum í horn. Þetta var því miður eina alvöru marktækifæri Valsmanna í fyrri hálfleik.
Valsmenn áttu fyrstu sóknina í seinni hálfleik en þá átti Hörður Ingi fína sendingu fyrir markið og þar var Patrick Pedersen en skallaði boltann út í teiginn en aftur kom Ellery Balcombe til varnar og greip boltann.
Stuttu síðar munaði ansi litlu að Frederik Schram skoraði sjálfsmark en hann fékk þá sendingu frá Bjarna Mark en Frederik hitti boltann illa og setti hann næstum því í eigið mark en sem betur fer rúllaði boltann útaf.
En aðeins örfáum mínum síðar eða á 51. mínútu skoruðu St. Mirren sitt annað mark en þá kom bolti inn fyrir á Roland Idowu en hann var vel fyrir innan vörn Vals og því rangstæður en því miður missti danski aðstoðardómarinn af þessu og eftirleikurinn var auðveldur fyrir leikmenn St. Mirren.
Idowu hljóp að markinu og Frederik kom út á móti honum en þá sendi Idowu boltann til hliðar á Toyosi Olusanya og hann renndi boltanum í autt markið. Staðan orðin 2:0 og brekkan fyrir Valsmenn orðin töluvert brattari.
Því miður áttu Valsmenn engin svör við spilamennsku St. Mirren. Heimamenn héldu bara áfram að sækja og þeir komust í 3:0 á 65. mínútu þegar fyrirliði liðsins, Mark O‘Hara, skoraði glæsilegt mark. Það kom langt innkast inn á teiginn og þar var það Jonah Ayunga sem skallaði boltann aftur fyrir sig og beint á O‘Hara sem negldi boltanum viðstöðulaust efst í markhornið.
Það kviknaði smá vonarneisti hjá Valsmönnum á 75. mínútu en þá var dæmd vítaspyrna á Skotana en það var brotið á Jónatani Inga og réttilega dæmd vítaspyrna. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði örugglega úr vítinu og staðan orðin 3:1 fyrir St. Mirren.
Því miður náðu leikmenn Vals ekki að fylgja þessu eftir og kláruðu heimamenn þetta á 87. mínútu en þá tók Mark O‘Hara elleftu hornspyrnu St. Mirren í leiknum. Spyrna hans var föst á markteiginn en boltinn fór í Jakob Franz og á markið en þar var Frederik klár og varði vel en Alexander Iacovitti fylgdi vel á eftir og setti boltann í netið af stuttu færi.
Lokatölur voru því 4:1 fyrir St. Mirren og Skotarnir fara áfram í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar. Ferðalagi Valsmanna í Evrópu þetta árið er því lokið.