Stjarnan fékk skell í Eistlandi

Kjartan Már Kjartansson og Abdoulie Ceesay eigast við í fyrri …
Kjartan Már Kjartansson og Abdoulie Ceesay eigast við í fyrri leiknum í Garðabæ. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan er úr leik í Sambandsdeild karla í knattspyrnu eftir stórt tap í seinni leiknum gegn Paide frá Eistlandi, 4:0, í Pärnu í dag.

Stjarnan vann fyrri leikinn 2:1 og Paide þar með einvígið 5:2 en Eistarnir mæta Häcken frá Svíþjóð, liði Valgeirs Lunddals Friðrikssonar,í þriðju umferðinni.

Heimamenn byrjuðu leikinn með látum og fengu hornspyrnu eftir aðeins 50 sekúnda leik. Robi Saarma tók hornið og hitti beint á kollinn á Predrag Medic en skalli hans var rétt framhjá.

Eftir þetta tóku Stjörnumenn öll völd á vellinum en fyrsta alvöru færi þeirra kom samt ekki fyrr en á 23. mínútu en þá fékk Helgi Fróði Ingason boltann inn á teignum eftir góða sókn Stjörnumanna en skot hans fór rétt framhjá.

Strax í næstu sókn fengu heimamenn gott færi en þá átti Patrik Kristal fínt skot sem Sindri Þór Ingimarsson náði að stökkva fyrrir og bjarga í horn.

Á 29. mínútu leiksins náðu heimamenn svo að skora en þá átti Daniel Luts góðan sprett um hægri kantinn og náði góðri sendingu fyrir markið sem Kjartan Már náði að komast fyrir en Luts fékk boltann aftur og reyndi aftur sendingu fyrir markið og í þetta skiptið rataði hún á Henrik Ojamaa sem negldi boltanum inn af stuttu færi, 1:0.

Eftir markið héldu leikmenn Paide áfram að sækja án þess að skapa sér alvöru marktækifæri en allur vindur virtist vera úr Stjörnumönnum.

Paide komst í 2:0 strax í upphafi seinni hálfleiks en það voru bara liðnar 45 sekúndur af hálfleiknum þegar Þórarinn Ingi átti slæma sendingu til baka á Mathias Rosenörn en Abdoulie Ceesay komst inn í þá sendingu og setti boltann út í teiginn og þar var Robi Saarma og hamraði boltanum efst í markhornið, 2:0.

Á 57. mínútu fengu svo heimamenn aftur mark á silfurfati. Aftur var það Þórarinn Ingi sem átti slæma sendingu til baka á Sindra Þór sem reyndi að koma boltanum á Mathias Rosenörn en þessi sending var alls ekki nógu góð og Abdoulie Ceesay þakkaði pent fyrir sig og setti boltann í netið, 3:0.

Verkefnið var því orðið ansi erfitt fyrir Stjörnumenn og því miður virtust þeir aldrei líklegir í seinni hálfleik að minnka muninn.

Michael Lilander kláraði þetta svo fyrir Eistana á 85. mínútu leiksins en þá skoraði hann beint úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teiginn. Lokatölur því 4:0 og Stjarnan þarf að kveðja Evrópu þetta árið.

Paide 4:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið +7 - 4:0 - Það er búið að flauta til leiksloka og það eru leikmenn Paide sem fagna stórsigri á liði Stjörnunnar. Svakalega svekkjandi niðurstaða. Paide vinnur einvígi 5:2.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert