Íslands- og bikarmeistarar Víkings eru komnir í 3. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir sigur á Egnatia frá Albaníu, 2:0, á útivelli. Albanska liðið vann fyrri leikinn 1:0 og vann Víkingur einvígið því 2:1.
Víkingsliðið mætir Flora Tallinn frá Eistlandi í næstu umferð.
Víkingar voru miklu betri í fyrri hálfleik og var boltinn á vallarhelmingi albanska liðsins nánast allan hálfleikinn.
Það skilaði sér í skrautlegu fyrsta marki leiksins á 28. mínútu er Gísli Gottskálk Þórðarson skaut í tvo varnarmenn og boltinn sveif yfir markvörð heimamanna.
Varamaðurinn Danijel Dejan Djuric, sem kom inn á fyrir meiddan Pablo Punyed, fékk úrvalsfæri til að skora annað markið en hann skaut yfir fyrir opnu marki á 45. mínútu eftir góða sókn Víkinga.
Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og fór Víkingur með eins marks forystu, 1:0, inn í seinni hálfleikinn og var staðan í einvíginu þá jöfn, 1:1.
Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn með látum því Aron Elís Þrándarson kom Fossvogsliðinu í 2:0 á 47. mínútu er hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Karli Friðleifi Gunnarssyni.
Eftir markið féll Víkingsliðið aftar á völlinn og fór að verja forskotið.
Heimamenn fengu tvö góð færi til að jafna metin í einvíginu. Fyrst átti Arbin Zejnullai skot yfir úr markteignum í sannkölluðu dauðafæri og svo slapp Lorougnon Doukouo einn í gegn en Ingvar Jónsson varði vel frá honum.
Annars sköpuðu heimamenn lítið og góður varnarleikur Víkinga skilaði liðinu yfir línuna.