Óskar sló Íslandsmetið í Kaplakrika

Óskar Örn Hauksson kom inn á sem varamaður undir lok …
Óskar Örn Hauksson kom inn á sem varamaður undir lok leiks FH og Víkings í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Örn Hauksson setti nýtt met þegar hann kom inn á sem varamaður hjá Víkingum í kvöld í sigurleik þeirra gegn FH, 3:2, í Bestu deild karla í fótbolta í Kaplakrika.

Óskar lék sinn 440. leik í deildakeppninni hér á landi og sló með því Íslandsmet Gunnleifs Gunnleifssonar sem lék 439 deildaleiki hérlendis á ferlinum.

Þetta var annar leikur Óskars með Víkingum í deildinni í ár en hann kom til þeirra sem styrktarþjálfari síðasta vetur, og tók fótboltaskóna með sér, en hann lék með Grindvíkingum í 1. deildinni á síðasta tímabili.

Óskar hefur leikið 49 deildaleiki með Njarðvík, 68 með Grindavík, 296 með KR, 25 með Stjörnunni og nú 2 með Víkingi.

Óskar bætti um leið leikjamet sitt í efstu deild, sem nú er 375 leikir, en hann er langleikjahæstur í deildinni frá upphafi. Birkir Kristinsson er næstur á eftir honum með 321 leik og síðan kemur Gunnleifur með 304 leiki í efstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert