Maður er kominn með sjálfstraust og þá er bara ein leið

Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmarkið.
Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Viðar Örn Kjartansson var hetja KA þegar liðið lagði Val, 1:0, á Greifavellinum á Akureyri í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Viðar skoraði sigurmark leiksins undir blálok fyrri hálfleiks.

„Tilfinningin er bara geggjuð. Við byrjuðum ekkert allt of vel, svona fyrstu 20 mínúturnar en eftir það fannst mér við mjög góðir. Valur er auðvitað hörkulið en það var eitt mark sem skildi að. Ég er mjög stoltur af strákunum, við erum alveg ótrúlega mikið lið. Þetta var bara flott.“

Þetta var annar leikurinn í röð sem Viðar skoraði í en hann virðist vera að komast í gang.

„Mér sýnist það. Fyrst þegar ég var að byrja leikina setti ég nú nokkur mörk en ég var alltaf rangstæður, var ekki alveg kominn með þetta. Mér líður frábærlega og er kominn í gott stand þó það hafi tekið sinn tíma. Það er eitt að æfa en leikformið er oft lengur að koma þegar maður er orðinn aðeins eldri.

Nú er maður kominn með sjálfstraust líka þannig að þá er bara ein leið.“

Viðar var mjög líflegur í dag en fyrir utan sigurmarkið skoraði hann annað mark sem var dæmt af ásamt því að fiska rautt spjald á Frederik Schram, markvörð Vals. Þá var hann sívinnandi og gerði varnarmönnum Vals lífið leitt allan leikinn.

„Ég vil meina að þegar ég var upp á mitt besta hafi ég spilað einhvern veginn eins og ég er að spila í dag. Ég segi bara að þetta helst allt í hendur. Það hefur aldrei hentað mér neitt rosalega vel að koma inná í 20 eða 30 mínútur í leikjum, ég þarf bara að hoppa beint í djúpu laugina. Það tekur mann líka bara tíma að koma í nýtt lið, ég var oft í tvo, þrjá mánuði bara að aðlagast nýjum stað og nýjum liðsfélögum. Gengið byrjaði brösulega hjá okkur í sumar þannig það má segja að þetta sé bara allt að smella núna og við horfum bara upp fyrir okkur.“

Viðar fór meiddur af velli en hann hélt um lærið þegar hann haltraði af velli.

„Ég held að þetta sé ekki alvarlegt. Ég lenti í svipuðu um daginn, framan á læri og þá var ég bara frá í nokkra daga. Ég vona að þetta sé bara stutt. Vonandi klár í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert