Rúnar Páll: Vont fyrir mig að tjá mig um það

Rúnar Páll Sigmundsson er þjálfari kvennaliðs Fylkis.
Rúnar Páll Sigmundsson er þjálfari kvennaliðs Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Eins og alltaf er leiðinlegt að tapa,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari karlaliðs Fylkis, í samtali við mbl.is eftir tap síns liðs fyrir Breiðabliki, 3:0, í Bestu deildinni í fótbolta í Kópavoginum í kvöld. 

Fylkir er í ellefta og næstneðsta sæti með 12 stig, jafnmörg og Vestri sem á leik til góða. 

„Mér fannst frammistaða drengjanna ágæt. Fáum á okkur ódýrt fyrsta mark. Þar var dæmt víti á eitthvað sem var ekki víti. Mjög léleg dómgæsla þar. 

Það breytti svolítið leiknum. Við héldum áfram að vera skipulagðir og voru fínir varnarlega. 

Breiðablik fær nánast ekki færi á okkur. Við erum að fá á okkur tvö víti og hitt markið eftir hornspyrnu. 

Heilt yfir fannst mér frammistaðan góð, þrátt fyrir tap. 

Við erum ekki nógu hugrakkir og flinkir á síðasta þriðjungi. Við erum að spila vel í gegnum þá, út úr pressunni og upp völlinn. 

Síðustu hamstrar í sóknunum hjá okkur fjara bara út. 

Við verðum að vera rólegri og klókari. Þar fylgir eflaust reynsla, við erum ekki með neinn hreinan framherja. Vantar meiri hugrekki og greddu í þessum lokastöðum. Verðum að halda áfram og vera ekki með eitthvað volæði,“ sagði Rúnar beint eftir leik. 

Fylkir er vel rekið félag

Ríkharð Óskar Guðnason, þáttstjórnandi Þungavigtarinnar, sagði frá því í síðasta þætti hlaðvarpsins að Fylkir hefði beðið leikmenn liðsins um að bíða með að fá greidd laun. 

Fylkir gaf síðan frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að þetta væri rétt, en að það hafi gerst áður.

Rúnar Páll var ekki sannfærður um að gefa frá sér yfirlýsingu vegna þessa máls en sagði sitt félag vera vel rekið. 

„Það er vont fyrir mig að vera að tjá mig eitthvað um fjárhagsstöðu Fylkis. Hún er fín og Fylkir er vel rekið félag. 

Ég vitna í þessa yfirlýsingu frá þeim, sem ég er reyndar ekki búinn að lesa sjálfur. 

Svo má alveg rökræða það hvort það eigi að vera með einhverjar yfirlýsingar um svona mál. 

En Fylkir er vel rekið félag og ekkert rugl þar í gangi. Ef þeir hafa talað við einhverja lykilmenn þá er það ekki í fyrsta skipti.“

Lítum upp á við 

Hvernig leggst svo framhaldið í þig?

„Vel. Næst er heimaleikur gegn öflugu liði KA sem hefur gert vel í síðustu leikjum. Heimavöllurinn er okkar vígi og þar ætlum við að taka mörg stig. 

Við erum spenntir fyrir því. Þarf ekki nema einn til tvo sigurleiki og þá ertu kominn upp úr þessu fallsvæði. 

Við verðum að horfa upp á við og ekki niður því við munum klára þetta mót vel,“ bætti kokhraustur Rúnar Páll við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert