Blikinn Ísak Snær Þorvaldsson var að vonum sáttur þegar að mbl.is talaði við hann eftir sigur Breiðabliks á Fylki, 3:0, í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu.
Blikar eru nú með 33 stig, sex stigum eftir Víkingum en eiga leik til góða.
Breiðablik datt út fyrir Drita frá Kósovó í undankeppni Sambandsdeildarinnar í síðustu viku. Leikurinn í kvöld var sá fyrsti hjá liðinu síðan.
„Það var mjög gott að ná sigri núna. Vorum svekktir að hafa dottið úr Evrópu og vildum sigur þar. Það er eins og það er. Þá er bara eitt mót eftir og það er að taka titilinn núna.
Við vissum að þetta yrði þolinmæðisvinna og þeir voru þéttir aftur. Það tók smá tíma að brjóta þá niður.
Að ná víti þarna í fyrri hálfleik var mjög gott. Við vissum svo að þegar á leið leikinn þá myndu þeir þreytast og leikurinn opnast,“ sagði Ísak Snær beint eftir leik.
Ísak fiskaði tvö víti í leiknum. Fyrra vítið sneri hann við í teignum og steig fyrir framan Orra Svein Segetta. Fylkismenn voru ósáttir við það víti.
„Ég stíg fram fyrir hann og sæki vítið. Ég veit ekki alveg af hverju þeir voru ósáttir en eiga sinn rétt á því. Mér fannst þetta vera víti.“
Í seinna vítinu stakk Ísak Ásgeir Eyþórsson af á sprettinum sem síðan braut á honum.
„Langur sprettur og barátta á milli tveggja leikmanna. Ég náði að stíga fram fyrir hann og sækja vítið þar.“
Ísak Snær var tekinn út af stuttu eftir þriðja markið. Hann hefur verið að glíma við smá óþægindi í náranum.
„Ég er búinn að vera í smá basli með nárann og fékk aðeins í hann í seinni leiknum gegn Tikvesh. Ég er búinn að vera að spila í gegnum það og við náðum að höndla það vel. Allt er á uppleið núna.“
Hvernig leggst svo framhaldið í þig?
„Þetta er alvöru barátta nú á toppnum. Hver einasti leikur skiptir máli og við ætlum okkur að sækja öll þau stig sem eru í boði,“ bætti Ísak Snær við í samtali við mbl.is.