Vilji til að snúa genginu við

Srdjan Tufegdzic var á sínum tíma aðstoðarþjálfari Vals. Hann er …
Srdjan Tufegdzic var á sínum tíma aðstoðarþjálfari Vals. Hann er orðinn aðalþjálfari núna. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var vonsvikinn eftir tap gegn KA í sínum fyrsta leik með liðið á Greifavellinum á Akureyri í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk 1:0 þar sem Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmarkið undir blálok fyrri hálfleiks.

„Vonbrigði að tapa leiknum. Fyrsti leikurinn og mikil vonbrigði að tapa.

Til að súmmera leikinn aðeins upp fannst mér við koma vel inn í leikinn og spila vel fyrstu 20 mínútur leiksins. Það var gott tempó í okkur með boltann og góðar hreyfingar. Við fáum allavega tvö dauðafæri og það var svona það sem okkur vantaði, að uppskera mark. Mér fannst við eiga mark skilið og við vorum líka flottir varnarlega svo þetta var klárlega framfararskref hjá liðinu. 

Síðasta korterið í fyrri hálfleik erum við svo meira að þvinga hluti. Erum að spila boltanum í svæði þar sem okkar menn voru kannski einir gegn þremur KA-mönnum og fá á okkur skyndisóknir í bakið. Svo kemur mark á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks eftir að það var klárlega brotið á Gylfa í aðdragandanum á miðsvæðinu, það sáu það allir. Ég þarf líka að sjá aftur hvernig var með Viðar þegar hann skoraði því hann virkaði aleinn þarna á fimm metrunum. 

Í seinni hálfleik byrjuðu KA-menn betur en við vorum smám saman að komast betur inn í leikinn þegar rauða spjaldið kemur. Við þurftum aðeins að breyta kerfinu okkar þegar við lendum 10 á móti 11 en þá fannst mér mínir menn sína karakter, sættu sig aldrei við að tapa og við reyndum og reyndum. Það vantaði bara smá upp á að komast í betri færi og jafna metin.“

Eftir rauða spjaldið var Valur meira með boltann þrátt fyrir að vera manni færri. Liðinu tókst samt sem áður illa að skapa færi.

„Ég er ánægður með hvaða karakter við sýndum þá. Við stóðum saman og reyndum að finna lausnir. Það var hugur í mönnum og við vorum nálægt því að komast í stöður til að jafna. Fengum kannski ekki dauðafæri en vorum oft nálægt því að skapa færi, þá vantaði bara síðustu sendinguna.“

Frederik Schram byrjaði í marki Vals í leiknum en fékk beint rautt spjald eftir um klukkutíma leik þegar hann var of seinn í úthlaup og braut á Viðari Erni. Frederik er á förum frá Val eftir tímabil en liðið sótti á dögunum Ögmund Kristinsson. Kom aldrei til greina að setja Ögmund í markið þegar þú tækir við?

„Ég ætla ekkert að fara út í hvað við ræddum innan okkar herbúða. Frederik er hörku markmaður og Ömmi er það líka. Ömmi er að koma til baka eftir smá hlé og er að koma sér aftur í toppstand. Hann er geggjaður karakter og kemur mjög sterkur inn í kvöld, bæði sem markmaður og líka sem varnarmaður þegar við vorum orðnir manni færri að taka sénsa. Það var mjög ánægjulegt að hafa Ögmund til taks í kvöld, hann er frábær markmaður.“

Gylfi Þór Sigurðsson ferðaðist ekki með Val til Skotlands í síðasta leik gegn St. Mirren í Sambandsdeildinni. Hann var mættur aftur í byrjunarliðið í kvöld en virtist vera farinn að kveinka sér þegar leið á leikinn.

„Honum leið mjög vel í gær og í fyrradag, annars væri hann ekki að byrja leikinn. Það eru alveg hreinar línur með það. Vonandi getur hann haldið áfram á þessari braut, honum líður vel og er að æfa vel. Það er stutt í næsta leik, við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum og reyna að vinna næsta leik.“

Tufa er nýtekinn við Val en hann hefur einungis náð örfáum æfingum með liðinu. Hann segir fyrstu dagana hafa farið vel af stað.

„Mér finnst vera mikil stemning í hópnum og vilji til að snúa genginu við. Ég er búinn með tvær æfingar og reyndi mitt besta að breyta smá hlutum sem mér fundust vera ekki í lagi. Mér fannst við líta út eins og ég vil að við lítum út fyrstu 25 mínúturnar í dag en nú þurfum við bara að fjölga þessum mínútum og halda áfram að leggja mikla vinnu í hlutina til að koma okkur á rétta braut.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert