Keflavík vann Suðurnesjaslaginn – jafnt í Mosfellsbæ

Oleksiy Kovtun, til hægri, skoraði fyrir Keflavík í kvöld.
Oleksiy Kovtun, til hægri, skoraði fyrir Keflavík í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Keflavík fór upp í þriðja sæti 1. deildar karla í knattspyrnu með því að hafa betur gegn nágrönnum sínum í Grindavík, 2:1, í Keflavík í kvöld. Afturelding og Leiknir úr Reykjavík skildu þá jöfn, 1:1.

Keflvíkingar eru nú með 27 stig, einu stigi á eftir ÍBV í öðru sæti og fimm á eftir toppliði Fjölnis.

Grindavík er áfram í níunda sæti með 17 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Oleksiy Kovtun og Kári Sigfússon komu Keflvíkingum í 2:0 með mörkum skömmu fyrir og eftir leikhlé

Kwame Quee minnkaði muninn fyrir Grindavík á 62. mínútu, þremur mínútum eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður, en þar við sat.

Elmar og Omar á skotskónum

Í leik Aftureldingar og Leiknis í Mosfellsbæ kom Elmar Kári Enesson Cogic heimamönnum yfir eftir rúmlega hálftíma leik.

Markahrókurinn Omar Sowe jafnaði hins vegar metin stuttu síðar, á 38. mínútu, og sættust liðin því á jafnan hlut.

Afturelding er í sjötta sæti með 21 stig og Leiknir er í tíunda sæti með 16 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert