Basl hjá okkur enda tapað fjórum leikjum í röð

Guðni Eiríksson þjálfari kvennaliðs FH.
Guðni Eiríksson þjálfari kvennaliðs FH. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Við vitum að það var basl hjá okkur í fyrri hálfleik og það er ekkert óeðlilegt eftir að hafa tapað fjórum leikjum í röð,“ sagði Guðni Eiríksson þjálfari FH-kvenna eftir 3:1 sigur á Fylki þegar liðin öttu kappi saman í 16. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu á Kaplakrika í kvöld.

FH-ingar voru óöruggir til að byrja með en svo rjátlaði af þeim og liðið fór að ná að sýna betri hliðarnar. „  Við erum með mjög ungt lið, það yngsta í deildinni og varð enn yngra en í síðasta leik, ungir leikmenn sem þurfa að axla mikla ábyrgð, sem skýrir jafnvel að einhverju leiti þetta óöryggi í fyrri hálfleik.“

FH hefur bætt við hópinn í félagaskiptaglugganum en flestar koma þær úr ÍH, svokölluðu systurfélagi FH og þær fengu að spreyta sig í dag. „Við erum að fá inn í hópinn ungar stelpur, sem æfa með okkur.  Koma líka úr umhverfi eins og okkar, erum að móta þær hjá ÍH í annarri deildinni svo þær séu tilbúnar í slaginn þegar á þarf að halda.  Við þurfum svo sannarlega á þeim að halda núna því við erum með lítinn hóp,“ bætti þjálfarinn við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert