Líflegt í lokin þegar FH vann Fylki

Arna Eiríksdóttir og liðsfélagar hennar í FH fá Fylki í …
Arna Eiríksdóttir og liðsfélagar hennar í FH fá Fylki í heimsókn. mbl.is/Eyþór Árnason

Fátt var um fína drætti og flott færi þegar Fylkiskonur sóttu stöllur sínar í FH heim í kvöld í 16. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta í kvöld en það rættist þó úr því, liðin tóku aðeins við sér þegar leið á leikinn svo úr varð sæmilegur leikur um tíma.  FH vann 3:1 en er enn í 5. sæti deildarinnar og Fylkir heldur því níunda en Keflavík í neðsta sætinu á leik til góða.

Þrátt fyrir FH-konur væru með boltann næstum alveg fyrri hluta fyrri hálfleiks var ekki mikið um færi en því meira um hnoð.  Það vantaði svo sem ekki að leikmenn beggja liða væru á hlaupum og langaði að búa til fallegar sóknir og falleg færi en af því varð ekki.

Í raun aðeins eitt umtalsvert, sem kom á 10. mínútu eftir þunga sókn FH og Breukelen Woodard fékk boltann rétt innan við markteigslínu, náði að hitta bolta og færið var stutt en of laust og Tinna Brá Magnúsdóttir markvörður Fylkis náði að sveifla hendinni fyrir boltann og verja.

Eitthvað vakti þetta Árbæinga, sem tóku aðeins við sér og náðu einhverjum sóknum en tókst ekki frekar en Hafnfirðingum að búa til færi og ógna marki mótherja.

Mark lá svo sem ekki í loftinu en á 29. mínútu fékk FH-ingurinn Breukelen Woodard boltann við vinstra markteigshornið, lék sér aðeins og leitaði færis, sem kom og hún skaut hnitmiðað í hægra hornið.  Staðan 1:0.

Gestirnir Árbænum voru farnir að færa sig uppá skaftið og sóknir þeirra urðu betri.

Á 32. mínútu munaði minnstu að Eva Rut Ásþórsdóttir jafnaði leikinn þegar hún skallaði að marki FH úr miðjum vítateig eftir hornspyrnu en Aldís Guðlaugsdóttir markvörður FH var snögg til, stakk sér aðeins til hliðar og varði vel.

Það var því að færast fjör í leikinn, FH samt aðeins meira með boltann en tókst ekki að finna nógu góðar glufur í vörn Fylkiskvenna, sem sjálfar fóru að vera óhræddar við að sækja.    Það vantaði samt aðeins meira í sóknartilburðina til að koma með góða færið.  Samt meira fjör en í byrjun leiks. 

Síðari hálfleikur var mjög tíðindalítill framan af, mikið um hlaup og sparkað í  boltann en það vantaði sóknir og færi.

Það var ekki fyrr en á 68. mínútu að fyrsta færið kom þegar Thelma Karen Pálmadóttir skallaði  boltann laglega inn fyrir vörn Fylkis á Elísu Lönu Sigurjónsdóttur, sem rauk í átt að markinu með boltann en Tinna Brá markvörður kom á móti og varði vel í horn.

Strax á eftir, á 69. mínútu, kom næsta umtalsverða atvikið  þegar boltinn hrökk í hönd Fylkiskonu svo dæmt var víti og úr því skoraði Breukelen af miklu öryggi, skaut í hægra hornið á meðan markmaður Fylkis fleygði sér í það vinstra.  Staðan orðin 2:0. 

Það hljóp aðeins meira fjör í leikinn því þegar Fylkir færði sig aðeins framar gengu FH-konur á lagið og voru nokkrum sinnum búnar að koma sér upp góðu hraðaupphlaupi en sem fyrr létu færin bíða eftir sér.

Svo kom þriðja markið á 81. mínútu þegar Valgerður Ósk Valsdóttir var með boltann rétt utan vítateigs og var ekkert að tvínóna við þetta, lét vaða og boltinn fór inn í markið alveg út við vinstri stöngina rétt utan við fingurgóma Tinnu Brá í markinu.  Staðan orðin 3:0.

Árbæingar voru þó ekki hættir og á 87. mínútu átti Eva Rut Ásþórsdóttir hörkuskot að marki FH en Aldís í markinu varði glæsilega í horn.

Upp úr þessu horn minnkaði svo Fylkir muninn þegar Helga Guðrún Kristinsdóttir var fyrst að átta sig í mikilli þvögu í markteig FH og kom boltanum í markið,  staðan 3:1.

Næsti leikur liðanna er í 17. umferð, þá mætast Keflavík og FH suður með sjó en Fylkiskonur sækja Val heim að Hlíðarenda.  Í lokaumferðinni sunnudaginn 25. ágúst mætast Valur og FH að Hlíðarenda en Fylkir og Þór/KA í Árbænum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Þýskaland 25:24 Spánn opna
60. mín. Leik lokið Alfreð Gíslason og Þjóðverjar eru komnir í úrslit!
Tindastóll 1:2 Þróttur R. opna
90. mín. Leik lokið Sterkur sigur Þróttara staðreynd!
Stjarnan 1:1 Valur opna
90. mín. Leik lokið

Leiklýsing

FH 3:1 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu +4. Aftur horn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert