Gáfum þeim færi á að komast inn í leikinn

Birta Georgsdóttir skoraði fyrsta mark Breiðabliks gegn Þór/KA í dag.
Birta Georgsdóttir skoraði fyrsta mark Breiðabliks gegn Þór/KA í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við gáfum þeim alltaf færi á að komast aftur inn í leikinn en eftir að við skorum þriðja marki fannst mér þetta aldrei spurning,“ sagði Birta Georgsdóttir, sem átti mjög góðan leik fyrir Breiðablik í 4:2 sigri á Þór/KA þegar liðin mættust í Kópavoginum í dag í 16. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

„Við lögðum upp með að spila eins og við gerðum, fannst við ná flottum spilköflum fyrir framan markið og í uppspili.  Þó við höfum eitthvað dottið niður þá fannst mér við gera þetta vel að mestu leiti. Eins og við vitum þá eru alltaf hörkuleikir við Þór/KA en ég svakalega ánægð með að í bæði skiptin þegar þær jafna þá sýnum við karakter, komum til baka og klárum leikinn almennilega.“

Blikar eru með 42 stig í deildinni, einu minna en Valur í efsta sætinu en það er ekki efst í huga Birtu. „Við horfum bara á þetta þannig að nú er bara vinna hvern leik sem er eftir af mótinu og þá vitum við hver útkoman verður.  Það er bara þannig að við erum alveg slakar, hugsum bara um að ná góðum leikjum,  byggja ofan á þessa frammistöðuna og klára mótið með stæl,“ bætti Birta við. 

Gott að framherjar okkar komust á blað

Nik Anthony Chamberlain þjálfari Breiðabliks var sáttur við sitt lið. „Ég held að þetta hafi verið besti leikur okkar í sumar. Mér fannst bæði lið eiga góða kafla og gerðu vel en gott fyrir framherja okkar að komast á blað, sérstaklega þar sem okkur vantað hefur uppá það í undanförnum leikjum. Við fengum færi og gátum skorað nokkur mörk en svona fór þetta, sagði þjálfarinn eftir leikinn,“ sagði Nik eftir leikinn. 

Sem fyrr segir eru Blikar einu stigi á eftir Val þegar tvær umferðir eru eftir en liðin mætast ekki meira í deildinni. „Við ræddum eftir leikinn við Val að ef við ynnum þá leiki sem eftir eru þá ynnum við deildina og það er enn takmarkið okkar, óháð hvað Valur er að gera en unnum í því alla vikuna.  Við gerum bara okkar og þá vinnum við deildina,“ bætti Nik við en næsti leikur Breiðablik er einmitt í bikarúrslitum við Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert