„Ég er eiginlega mjög svekkt eftir þennan leik,“ sagði Karen María Sigurgeirsdóttir sem átti frábæran leik fyrir Þór/KA gegn Blikum í dag og lét vörn Blika hafa mikið fyrir sér en það dugði ekki til og Breiðablik vann 4:2 í 16. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta, sem fram fór í Kópavoginum í dag.
„Við náðum að koma tvisvar til baka eftir að hafa fengið á okkur mark og jafna en fengum á okkur fjögur mörk og ég er aðallega svekkt með hvað þetta er mörg mörk úr föstum leikatriðum. Mér fannst við alltaf komast inní leikinn eftir að við fengum á okkur mark en svo þegar leið á seinni hálfleikinn fannst mér við aðeins detta út úr leiknum.“
Þar sem tvær umferðir eru eftir af mótinu og Þór/KA í 2. sætinu með 28 stig en Breiðablik í 2. sæti með 42, er ljóst að markmið Akureyringa næst ekki. Þeir verða frekar að gæta sín á Víkingum með 26 stig og FH með 22. „Okkar markmið var að reyna við annað sæti í deildinni, veit ekki hvað verður um það markmið en við höldum bara áfram að reyna,“ sagði Karen María.
Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA var sáttur við margt í sínu liði. „Mér fannst bæði gera margt vel og illa í þessum leik en það sem skilur á milli er að Blikar skora meira,“ sagði þjálfarinn eftir leikinn. „Okkur kom ekki margt á óvart, Breiðablik er með rosalega gott lið, mikla breidd og marga leikmenn en mér fannst leikmenn okkar, sem hafa spilað minna hjá okkur í sumar en komu inn í þetta leik standa sig mjög vel. Við börðumst alveg en það vantaði nokkur lítil atriði hjá okkur til að koma í veg fyrir afdrifaríka hluti. Þetta er annar útileikur okkar í röð og við höfum skorað fimm mörk en bara fengið eitt stig, þá er eitthvað sem þarf að laga.“