Við erum vanar þessari stöðu

Aníta Lind Daníelsdóttir í leik með Keflavík gegn Fylki á …
Aníta Lind Daníelsdóttir í leik með Keflavík gegn Fylki á tímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Aníta Lind Daníelsdóttir var afar svekkt með tap Keflavíkur gegn Víkingum í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í dag en Aníta brenndi af vítaspyrnu í fyrri hálfleik leiksins. Við ræddum við Anítu strax eftir leik:
Þið eruð á botni deildarinnar líkt og fyrir leikinn. Er ekki bara fall sem blasir við liði Keflavíkur?
„Þetta verður erfitt en við ætlum að gera allt sem við getum til að halda okkur uppi. Við erum vanar þessari stöðu að vera í fallbaráttu í lok tímabils en við ætlum að gera allt sem við getum.“
Eins og þú segir þá eruð þið vanar því að vera í þessari stöðu á þessu tímapunkti tímabilsins. Hefur Keflavík ekki bara gott af því að fara niður um deild í eitt ár og endurstilla sig og reyna að koma aftur til baka ári síðar?
„Það er alveg spurning en við erum með ungar stelpur sem eru alveg að sýna að þeir geti spilað í efstu deild þannig að mér finnst við ekkert endilega eiga frekar heima í Lengjudeildinni. Okkur vantar bara að ná að vera með heilan hóp og meiri breidd. Við erum að spilar nánast allar mínútur á sömu leikmönnum og þá fer þreytan að segja til sín.“
Voru þetta sanngjörn úrslit í dag?
„Nei ekkert endilega. Ég klúðraði víti sem var dýrt og þær fengu ekkert fleiri eða betri færi en við. Þær bara nýttu sín færi en við ekki.“
Næsti leikur er á fimmtudag gegn FH hér í Reykjanesbæ. Hvernig sérðu þann leik fyrir þér?
„Það er bara 6 stiga leikur sem við verðum og ætlum að vinna, ekki spurning.“ sagði Aníta Lind í samtali við mbl.is. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert