Blikar nýttu sér ekki jafntefli Víkinga

Stjörnumaðurinn Kjartan Már Kjartansson í baráttunni við Blikann Aron Bjarnason.
Stjörnumaðurinn Kjartan Már Kjartansson í baráttunni við Blikann Aron Bjarnason. mbl.is/Ólafur Árdal

Stjarnan og Breiðablik skildu jöfn, 2:2, í 18. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld. 

Stjarnan er í sjöunda sæti með 24 stig en Breiðablik er í öðru sæti með 34 stig, sex stigum minna en toppliðið Víkingur en Kópavogsliðið á leik til góða. 

Stjörnumenn voru sterkari í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það fékk Davíð Ingvarsson í liði Breiðabliks dauðafæri á 26. mínútu þegar hann setti boltann rétt fram hjá eftir sendingu frá Kristni Jónssyni. 

Davíð fékk síðan dæmda á sig vítaspyrnu á 38. mínútu þegar boltinn fór í höndina á honum inn í teig Breiðabliks. 

Á punktinn steig Emil Atlason og skoraði örugglega, 1:0 fyrir Stjörnunni.

Viktor Karl Einarsson jafnaði metin fyrir Breiðablik á 55. mínútu. Þá skoraði hann með snyrtilegu skoti út í vinstra hornið eftir sendingu frá Davíð, 1:1.

Ísak Snær Þorvaldsson kom Breiðabliki yfir á 78. mínútu leiksins. Þá gaf Davíð sína aðra stoðsendingu, beint á Ísak sem skaut boltanum laglega í netið, 1:2. 

Varamaðurinn Haukur Örn Brink hafði aðeins verið inn á í þrjár mínútur þegar hann jafnaði metin á 84. mínútu. 

Þá fékk hann sendingu inn fyrir frá Róberti Frosta Þorkelssyni og smellti boltanum í fjær, 2:2. 

Stjarnan heimsækir KA eftir viku en Breiðablik heimsækir Val í stórleik næsta fimmtudagskvöld. 

Stjarnan 2:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert