„Jú, við stóðum í þeim svo sannarlega í fyrri hálfleik en rétt eins og í leiknum við Víking um daginn þá förum við særðir inn í hálfleikinn og náum ekki vinna okkur upp úr því,“ sagði Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK eftir sárt 5:1 tap fyrir Val þegar liðin mættust á Hlíðarenda í kvöld til að spila í 17. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
HK byrjað með sjálfstrausti og góðri vörn en fengu skell á 9. mínútu þegar Ívar Örn Jónsson felldi leikmann Vals inni í vítateig og fékk fyrir það rautt spjald en Valur vítaspyrnu, sem Gylfi Þór Jónsson skoraði úr. Ekki bætti svo úr skák að eftir að jafna einum færri náði Valur aftur forystu á nokkrum sekúndum áður en uppbótartíma fyrri hálfleiks lauk. Þjálfarinn sagði það sérstaklega slæmt.
„Auðvitað er erfitt að vera einum færri á móti hæfileikaríku liði eins og Val en það særði okkur mikið að fara inn í hálfleik eftir að fá á okkur mark fimm sekúndum áður og breytti andrúmsloftinu mikið. Í stað þess að vera stoltir af því sem við gerðum eftir að við misstum Ívar útaf þá fara menn dálítið særðir inn og við náðum ekki að koma út með sömu trú og við höfðum sýnt í fyrri hálfleik.“
Þjálfarinn sagði eitthvað jákvætt í þessum leik fyrir sitt lið en ætlaði að leyfa sér að vera súr í bili. „Við getum tekið eitthvað með úr þessum leik og verðum alltaf að gera það í næsta leik, sem er við Fylki. Held að við finnum út úr því á morgun, leyfum okkur að vera súrir með ýmislegt í kvöld en undirbúningurinn fyrir leikinn við Fylki hefst á morgun og þá þarf að endurtaka góðu hlutina og koma í veg fyrir þá slæmu,“ bætti Ómar Ingi þjálfari við.