Stórlið Vals átti í mesta basli framan af þegar HK, sem berst við falldrauginn, kom í heimsókn er leikið var í efstu deild karla í fótbolta. Þrátt fyrir að missa mann í rautt spjald á 8. mínútu tókst Val ekki að þræða sig í gegnum baráttuglaða HK-menn sem jöfnuðu en eftir hlé náði Valur að sýna sparihliðarnar og vinna 5:1.
Valsmenn ætluðu sér að taka leikinn strax í sínar hendur og á 3. mínútu gaf Gylfi Sigurðsson á Kristinn Frey Sigurðsson langt inn fyrir vörn, rakti boltann upp að Christoffer, nýja markmanni HK, sem kom vel út á móti.
Gestirnir úr Kópavogi hristu það af sér og reyndu að sækja.
Svo dró til tíðinda á 8. mínútu þegar Ívar Örn Jónsson varnarmaður HK togaði Valsarann Jónatan Inga Jónsson niður í teignum. Dæmd var vítaspyrna auk þess að Ívar Örn fékk rautt spjald. Gylfi Þór tók vítið og þrumaði ofarlega í mitt markið á meðan Christoffer fleygði sér í hornið. Staðan 1:0.
Valsmenn reyndu að láta kné fylgja kviði og sóttu stíft en gekk illa finna nógu góðar glufur í vörn HK-manna, sem fjölmenntu í teiginn þegar Valur sótti. HK-menn reyndu svo að hafa varnarlínu sína utan við vítateiginn en sóttu líka.
Til dæmis átti Atli Þór Jónasson hörkuskot að marki Vals hægra megin í teignum en Ögmundur fleygði sér niður og varði.
Valsmenn héldu sínu striki og sóttu en vörn HK var þétt svo að Valur náði bara að fá nokkrar hornspyrnur og skot, sem fóru langt framhjá.
Aftur stukku HK-menn í sókn og náðu að fjölmenna, Atli Hrafn Andrason átti síðan gott skot en beint á Ögmund í markinu á 29. mínútu.
Á 27. mínútu fékk Kristinn Freyr gott færi þegar boltinn barst óvænt fyrir mark HK, hann náði að ýta á boltann rétt við marklínu en Christoffer varði með tilþrifum af mjög stuttu færi.
Svo fékk Valur skell. Á 36. mínútu varð ótrúlegt klúður í vörn Vals á miðjum vellinum, boltinn hrökk á Atla Þór Jónasson, sem rauk upp völlinn og inn í vítateig hægra megin þar sem hann þrumaði undir Ögmund í markinu, staðan 1:1.
Enn reyndu Valsmenn að taka leikinn í sínar hendur en sem fyrr áttu þeir ekkert svar við þéttri og hreyfanlegri vörn HK. Frekar að HK átti færin þegar Arnþór Atli og Atli Hrafn áttu ágætis skot í góðum sóknum.
Loks tókst Val að finna leiðina á marki HK en það var ekki með því að spila sig í gegnum þétta vörn HK heldur fékk Jónatan Ingi frábæra frábæra sendingu Bjarna Duffield, rauk upp kantinn og þurfti að leika á varnarmann HK áður en hann náði að skjóta undir Christoffer í markin. Staðan 2:1 og síðasta spyrna fyrri hálfleiks.
Síðari hálfleikur byrjaði á því að Valsmenn settu kraft í sóknarleikinn og reyndu að byggja upp eitthvað, sem myndi skila þeim í gegnum vörn HK en það var ekki að gerast.
Fyrsta færi síðari hálfleiks kom á 49. mínútu þegar Atli Þór átti óvænt skot af 25 metra færi en Ögmundur í marki Vals sá hættuna og náði að slá boltann í slánna og yfir. Þvílíkt skot og þvílík varsla.
Þá fór þetta að ganga hjá Val.
Fyrst skoraði Jónatan Ingi á 52. mínútu með góðu skoti gegnum fullan markteig HK og staðan 3:1.
Fjórða markið á 55. mínútu var frekar skrautlegt en sýndi þó einbeitt vilja til að skora. Fyrst slapp Birkir Már Sævarsson varnarmaður í gegn en HK tókst að verjast og koma boltanum út í vítateig. Þar kom Patrick Pedersen og skaut en aftur tókst varnarmönnum HK að verjast og aftur fór boltinn út í teig. Þá kom Gylfi Þór og honum tókst að skjóta af öryggi framhjá vörn HK. Staðan 4:1.
Jónatan Ingi kláraði svo þrennu á 75. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti sem markmaður HK varði frá Gylfa Þór og skaut af öryggi í miðjum vítateig. Staðan 5:1.
Næstu leikir liðanna – þá taka Valsmenn á móti Blikum á Hlíðarenda og HK fær Fylki í heimsókn. Enn óvíst hvenær HK mætir KR eftir leiknum var frestað um daginn.