„Ég held að við höfum komið mjög sterkir inn í leikinn og áður en við fengum rauða spjaldið á HK erum við búnir að fá færi og áttum að vera búnir að skora fleiri mörk fyrsta korterið, sagði Srdjan Tufegdzic, oftast kallaður Túfa, þjálfari Vals eftir 5:1 sigur á HK þegar liðin mættust á Hlíðarenda í 17. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
Að vera einum fleiri með eitt mark í forskot virtist ekki hvetja Valsmenn til að gera betur, frekar að þeir gáfu eftir og Túfa var ekki ánægður með það. „En það gerðist ekki og svo hleypum við leiknum í óþarfa ping-pong, sem var alger óþarfi. Þá fær HK mark og kraft og trú á verkefnunum, það er síðan þannig að þegar þú ert tíu á móti ellefu þá gefur þú meira í leikinn en markið okkar í lok fyrri hálfleiks gefur okkur ró til að ræða leikinn í hálfleik enda við fórum yfir hvað var að hjálpa okkur og hvað var ekki að því.“
Síðari hálfleikur varð fljótlega eign Valsmanna enda oft gott að skora mark til að komast yfir rétt fyrir hálfleik, eins og gerðist í þessum leik með marki í lok uppbótartíma í fyrri hálfleik. „Í seinni hálfleikurinn var síðan aldrei spurning hvernig leikurinn yrði. Mér fannst þegar við vorum með flæði á boltanum með aðeins meiri þolinmæði og eina aukasendingu, færa boltann á milli kanta þá opnast færi, sem við ætluðum okkar að gera – sérstaklega þegar við vorum ellefu á móti tíu og þá fengum við betri stöðu með fyrirgjafir og opna aðeins svæði gegn vörn sem liggur svona lágt,“ bætti þjálfarinn við.
Valsmenn sýndu hvað í þeim býr eftir hlé og Túfa hlakkar til. „Þetta er gott skref fram á við, margt gott í leiknum, mikill vilji, góður andi og það er eitthvað til að byggja ofan á. Það tekur að sjálfsögðu smá tíma að breyta einhverju hjá liðinu, ég er búinn að fá um fimm æfingar og tvo leiki á einni viku. Það er ekki óskastaða fyrir þjálfarann, að hafa ekki viku á milli leikja en annars hlakka ég til að fara í leiki. Er sjálfur mikill keppnismaður og er með hóp með geggjaða leikmenn sem eru miklir keppnismenn og við bara hlökkum til. Nú þurfum við bara að undirbúa okkur vel fyrir næsta leik á fimmtudaginn,“ sagði þjálfarinn að lokum.