Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu hefur vikið Englendingnum Chris Brazell frá störfum, en hann hefur þjálfað Gróttu í hálft fjórða tímabil.
Tímabilið hefur verið ansi erfitt hjá Gróttu og er liðið í botnsæti 1. deildarinnar með 13 stig eftir 16 leiki. Liðið hefur tapað níu leikjum af síðustu tíu og var 3:2-tapið gegn Dalvík/Reyni í botnslag síðasti leikur Gróttu undir stjórn Brazells.
„Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu hefur ákveðið að Chris Brazell láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla. Stjórn telur nauðsynlegt að ráðast í breytingar á þessum tímapunkti en Gróttuliðið er í harðri fallbaráttu nú þegar fjórðungur er eftir af Lengjudeildinni,“ segir m.a. í yfirlýsingu Gróttu.