Rúnar Páll: Að duga eða drepast

Rúnar Páll Sigmundsson er þjálfari Fylkis.
Rúnar Páll Sigmundsson er þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir og KA skildu jöfn, 1:1, í 18. umferð Bestu deildar karla í dag. Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, mætti í viðtal til mbl.is

„Ég er ánægður með fyrri hálfleikinn og ég er ánægður með síðustu 20 mínúturnar í seinni hálfleik. Síðan lágu KA-menn á okkur fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik.

 Þeir fengu ekki færi eða neitt þannig en reyndar skoruðu markið sitt sem mér fannst frekar dapurt af okkur að gefa þeim,“ sagði Rúnar Páll í samtali við mbl.is eftir leik.  

Fylkir var sterkari aðilinn í leiknum og fékk góð færi í en náði ekki að nýta sér þau.

„Við erum að fá þessi dauðafæri á þá en við náum ekki að skora úr þeim. Emil [Ásmundsson] gerir vel í markinu og það var flott sókn hjá okkur. Við fengum hættuleg færi og við hefðum átt að nýta þau betur því KA-menn fengu ekki mörg slík á okkur,“ sagði Rúnar Páll.

Fylkir situr á botni deildarinnar með 13 stig en KA í áttunda sæti með 23 stig. 

„Við fáum stig á móti öflugu liði KA-manna sem eru búnir að gera feikivel í síðustu leikjum og við ætlum bara að taka það og síðan höldum við áfram,“ sagði Rúnar Páll.

Fylkir hefur enn ekki sótt leikmann í félagskiptaglugganum í sumar. Aðspurður sagði Rúnar Páll að það gengi ekkert upp hjá Fylki á félagskiptamarkaðnum.

„Það bara gengur ekki neitt. Eins og staðan er í dag þá virðist ekkert vera að ganga upp,“ sagði Rúnar Páll.

Fylkir mætir HK í botnslag í næstu umferð. Rúnar Páll er brattur fyrir framhaldinu.  

„Mér líst vel á framhaldið. Það er bara að duga eða drepast á móti HK á sunnudaginn. Við þurfum að vinna þann leik,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert