Óskar Hrafn má alveg taka hrósið fyrir þetta

Í kvöld kom fyrsti sigur KR á heimavelli á tímabilinu …
Í kvöld kom fyrsti sigur KR á heimavelli á tímabilinu í deildinni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við spiluðum eins og lið sem er búið að bíða lengi eftir sigri,“ sagði Atli Sigurjónsson fyrirliði KR í kvöld eftir fyrsta sigur liðsins á heimavelli í Bestu deild á þessu tímabili. 

„Við komum inn marki og vorum að verja það með harki, ég hefði kannski viljað sækja aðeins meira og bæta við marki en það er frábært að ná að klára þetta og ná sigri,“ sagði Atli eftir leikinn.

Auk þess var þetta í fyrsta sinn sem liðið hélt hreinu í deildinni og fyrsti leikur Óskars Hrafns Þorvaldssonar sem aðstoðarþjálfari liðsins. 

Hvað breyttist, var það Óskar?

 „Óskar Hrafn má alveg taka hrósið fyrir þetta en menn settu baukinn saman og við hörkuðum þetta í gegn, náðum sigrinum og nú getum við byggt ofan á þetta.

Það er mjög mikilvægt að ná að halda hreinu. Það er erfitt að vinna leiki þegar við fáum á okkur mörg mörk svo það er mikilvægt að ná því loksins.“

Atli og aðrir KR-ingar eru vanari að vera að berjast á hinum enda töflunnar en eru núna í fallbaráttu. 

„Það er ekki eins gaman og að vera að vinna að einhverju stærra en þetta er staðan. Við þurfum bara að safna stigum það byrjaði hér og við þurfum að halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert