„Mér fannst ekki auðvelt að spila fótbolta í dag, völlurinn þurr og erfiður, langar sendingar og svoleiðis svo það var erfitt að spila fótbolta enda hvorugt liðið ekki að skapa sér mörg færi í lokuðum leik en stundum þarf bara eitt augnablik og við nýttum okkar það,“ sagði Viktor Jónsson, sem skoraði mark ÍA í 1:0 sigri á Fram þegar liðin mættust á Skipaskaga í kvöld til að spila í 18. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
Með markinu tryggir Viktor sig á toppi markaskora deildinni með 14 mörk en Valsararnir Patrick Pedersen er með 12 mörk og Jónatan Ingi Jónsson með 10, eftir þrennu í síðasta leik.
Við áttum sannarlega von á að Fram myndi sækja stíft í seinni hálfleik en það er langt síðan við unnum leik og þá kemur upp svona smá spenna, einhver vottur af stressi þegar maður er kominn með forystuna og vill halda henni, svo að ósjálfrátt fer maður aftar á völlinn en mér fannst við gera það ótrúlega vel. Varnarmenn okkar stóðu sig frábærlega, náðu að skalla boltann í burtu og við að ná að halda þokkalegri pressu í sókninni með því að með því að fara ofar á völlinn svo þetta var bara vel spilað.
Með sigrinum tókst Skagamönnum að fara upp um tvö sæti, upp fyrir Fram og FH, og Viktor segir félagið líklegt til að ná markmiði sínu.
Auðvitað er draumamarkmiðið hjá okkur að enda á meðal sex efstu liðanna og svo þegar úrslitakeppnin setjum við okkur ný markmið. Mér finnst við allir mjög samstíga, á sömu blaðsíðu og vitum hvernig við viljum spila. Stundum er það erfitt og hefur verið erfitt uppá síðkastið en við erum hægt og rólega að ná flæðinu í leik okkar og vonandi hjálpar þessi sigur okkur að komast aftur á ról.