Ósátt við íslenska knattspyrnuþjálfara: „Haga Þórir og Alfreð sér svona?“

Hafrún Kristjánsdóttir er íþróttasálfræðingur.
Hafrún Kristjánsdóttir er íþróttasálfræðingur. mbl.is/Binni

Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur og deildarforseti íþróttadeildar Háskólans í Reykjavík, er allt annað en sátt við framkomu íslenskra knattspyrnuþjálfara. 

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings, gjörsamlega missti skapið þegar að Vestri jafnaði í leik liðanna í Bestu deild karla í knattspyrnu síðasta sunnudag. 

Hann var síðan rekinn af velli og hlaut þriggja leikja bann. 

Pistill Hafrúnar kemur í kjölfar þess en hún biðlar til þjálfara karlaliða í íslenskri knattspyrnu að hætta að haga sér eins og trúðar. 

„Síðustu tvö eða þrjú tímabil hafa ítrekað komið upp atvik þar sem að þjálfarar í efstu tveimur deildum í íslenskum karlafótbolta haga sér eins og trúðar. Þeir gjörsamlega missa stjórn á skapi sínu og gera hluti sem hvergi annars staðar en á hliðarlínunni væru taldir ásættanlegir,“ segir Hafrún í byrjun. 

Hún bendir síðan á að heimsklassaþjálfarar eins og Þórir Hergeirsson, sem stýrði kvennaliði Noregs til gullverðlauna í handbolta kvenna á Ólympíuleikunum, eða Alfreð Gíslason, sem stýrði Þjóðverjum til silfurverðlauna í handbolta karla á Ólympíuleikunum, hegða sér aldrei svona. 

Þá tekur hún einnig Óskar Bjarna Óskarsson, þjálfara karlaliðs Vals í handbolta, og Finn Frey Stefánsson, þjálfara karlaliðs Vals í körfubolta, fyrir og segir að þeir myndu heldur aldrei hegða sér svona. 

Furðulega algengt í íslenskum fótbolta

„Þessi skapofsaköst þjálfara virðast vera furðu algeng í íslenskum fótbolta en hafa nú alveg sést í handbolta og körfubolta. 

Ég hef hins vegar aldrei séð þjálfara í öðrum íþróttagreinum missa sig gjörsamlega. Það er ekki af því að því að þeir hafi eitthvað minna „passion“ en íslenskir fótboltaþjálfarar. 

Ég sat við hliðin á þjálfara sundmanns sem var dæmdur ógildur í sundkeppni á ÓL. Hann var svekktur, mögulega ekki sammála ákvörðun dómarans en hafði fullkomna stjórn á tilfinningum sínum.

Það var meira undir í þessu sundi en í leik Vestra og Víkings - því get ég lofað ykkur.  Ég gæti líka nefnt endalaus dæmi úr öðrum greinum, frjálsum, fimleikum og svo framvegis þar sem þjálfurum á efsta stig (sko raunverulegu efsta stigi) fannst halla á sína íþróttamenn í dómgæslu.

Aldrei hef ég séð eða heyrt af slíkum tryllingi sem virðist vera bara allt að því daglegt brauð í íslenskum fótbolta,“ bætti Hafrún meðal annars við en pistil hennar má í heild sinni sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert