Helgi til Hollands

Helgi Fróði Ingason í leik með Stjörnunni í sumar.
Helgi Fróði Ingason í leik með Stjörnunni í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn Helgi Fróði Ingason er genginn til liðs við hollenska félagið Helmond Sport frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni.

Helgi Fróði er 18 ára gamall en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 30 leiki fyrir Stjörnuna í Bestu deildinni og skorað í þeim tvö mörk, bæði í sumar.

Helmond leikur í B-deild í Hollandi og festir kaup á miðjumanninum unga. Skrifaði Helgi Fróði undir fjögurra ára samning sem rennur út sumarið 2028.

„Það er alltaf ánægjulegt þegar við sjáum unga uppalda leikmenn stíga skrefið í atvinnumennsku en Helgi Fróði er níundi leikmaðurinn sem félagið selur erlendis frá árinu 2020 er við ákváðum að breyta um áherslur og mörkuðum þá stefnu að ætla okkur bæði árangur inn á vellinum ásamt því að búa til grundvöll fyrir unga leikmenn til að skína, sem við höfum sannarlega gert.

Í tilviki Helga Fróða var mikill áhugi frá félögum í Hollandi og hafa mörg tilboð verið á borðinu í allt sumar og við erum gríðarlega ánægð með þegar leikmenn og fjölskyldur treysta því ferli sem við höfum unnið eftir.

Um leið og ég óska nafna mínum til hamingju þá er ég sannfærður að aðrir leikmenn félagsins munu stíga enn frekar upp,” sagði Helgi Hrannarr Jónsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni, í tilkynningu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert