Annað markið þeirra drap aðeins niður hjá okkur

Kristinn Freyr í baráttu við Höskuld Gunnlaugsson í kvöld.
Kristinn Freyr í baráttu við Höskuld Gunnlaugsson í kvöld. Arnþór Birkisson

„Við vissum allir að það var mikið undir í þessum leik, Valur og Breiðablik í heimaleik, og vildum taka næstu skref eftir góðan leik við HK en það tókst ekki og Breiðablik tók næsta skrefið í dag,“ sagði Srdjan Tufegdzic, oftast kallaður Túfa, þjálfari Vals eftir 0:2 tap fyrir Blikum þegar liðin mættust í frestuðum leik í 18. umferð efstu deildar karla í fótbolta á Hlíðarenda.

Valsmenn fengu fyrstu þrjú góðu færin en Anton Ari Einarsson markvörður Blika sýndi ótrúlega takta við að verja og það sló Valsara aðeins útaf laginu.  „Mér fannst við kom hrikalega vel inn í leikinn, höfðum góða stjórn á honum og fengum þrjú dauðafæri með einn á móti Antoni markmanni Breiðabliks til að komst sanngjarnt yfir og hafa leikinn í okkar höndum.  Það tókst hins vegar ekki en eftir það náði Breiðablik að komast aðeins inn í leikinn og fékk svo ódýrt mark eftir horn, sem gaf þeim góða forystu til að fara með inn í hálfleik.“

Srdjan Tufegdzic þjálfari Vals.
Srdjan Tufegdzic þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við byrjuðum ekki nógu vel í seinni hálfleik en eftir nokkrar mínútur, þegar við erum að ná stjórn á leiknum, kemur annað mark frá þeim, sem í raun drap aðeins niður hjá okkur leikinn.  Við gáfumst samt ekki upp, héldum stöðugt áfram til að skora eitt mark og koma spennu í leikinn en það tókst því miður ekki í dag,“ bætti þjálfarinn við.

Fótboltinn er óútreiknanleg íþrótt og nóg eftir

Kristinn Freyr Sigurðsson fyrirliði Vals var eðlilega svekktur með úrslitin og að nýta ekki færin.  „Við fengum færin í dag en það vantaði bara að skora úr þeim til að komast yfir, sem skiptir máli í svona leik því er mikilvægt að skora fyrst í svona leikjum og við fengum sannarlega færi til þess en það gerist ekki og svo er okkur refsað úr föstu leikatriði,“ sagði fyrirliðinn eftir leikinn en segir ballið ekki búið.

„Við ætluðum að vinna í dag og ætluðum að koma okkur almennilega í toppbaráttuna en það tókst ekki. Leikurinn var að sjálfsögðu mikilvægur en það þýðir ekkert að hengja haus, það eru held ég níu leikir eftir og fótboltinn er óútreiknanleg íþrótt svo það er margt sem getur gerst og við höldum bara ótrauðir áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert