Anton Ari varði og Blikar fengu löðrung

Anton Ari Einarsson markvörður Breiðabliks átti mögnuð tilþrif gegn Val …
Anton Ari Einarsson markvörður Breiðabliks átti mögnuð tilþrif gegn Val í kvöld. mbl.is/Kristinn Steinn Traustason

„Mér fannst þetta heldur betur barátta, hörkuleikur og völlurinn rennandi blautur svo það var mikil ákefð í þessum leik þegar boltinn var að fljóta og návígin mörg en mér fannst þetta erfiður en svakalega skemmtilegur leikur gegn mjög svo góðu Valsliði á erfiðum útivelli,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Blika eftir 2:0 sigur á Val þegar liðin mættust að Hlíðarenda í kvöld.

Anton Ari Einarsson markmaður Breiðabliks varði þrívegis glæsilega úr mjög góðu færi Valsmanna og það vakti Blika af værum blundi. „Mér fannst í raun að Anton hélt okkur inni í þessum leik til að byrja með.  Valsarar voru að finna ákveðnar lausnir gegn okkur í byrjun en þá var Anton stórkostlegur. 

Við fengum eftir að hann varði þarna í byrjun, löðrung í andlitið og náum að bregðast við, tökum eftir það stjórn á leiknum og meðbyrinn var með okkur eftir einhverjar fimmtán mínútur og eftir það fannst mér við eiga fyrri hálfleikinn.  Við þurftum líka að vera hugrakkir með að halda í boltann því oft er sóknin besta vörnin en Anton var frábær í dag,“ sagði Höskuldur.

Viðureign Vals og Blika í kvöld var frestaður leikur úr 16. umferð og nú hafa öll liðin í deildinni lokið 18 leikjum, nema hvað HK og KR eiga eftir frestaðan leik.  Það þýðir að liðin í efri hlutanum eiga eftir 4 leiki í deildinni, sem þýðir að 12 stig eru í pottinum í deildinni en svo er eftir efri og neðri hluta leikirnir. 

Víkingar eru í efsta sætinu með 40 stig en Blikar næstir með 37 en Valur er eftir kvöldið í þriðja sætinu með 31 stig, þremur meira en ÍA og FH en fimm meira en Fram í sjötta sætinu – síðasta lausa sætinu í efri hluta keppninni.

Höskuldur sagði lið sitt meðvitaða um þessa stöðu. „Það má alveg segja að það sé ákveðin valdefling að vinna svona sterkt lið eins og Val á útivelli, lið sem við erum að keppa við um baráttuna á toppnum.  Vissulega fæst sama stigafjöldi fyrir sigur en þú þarft að vera meðvitaður um það – að þú fáir ekkert fleiri stig – en nýta þá þessa valdeflingu með okkur í framhaldið,“ sagði fyrirliðinn.

Auka orka í svona stórleikjum

Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks sagði gott að þessi leikur væri búinn svo hægt sé að hafa stöðuna í deildinni skýra.  „Í dag voru hér liðin, sem áttu þennan frestaða leik, í öðru og þriðja sæti svo menn voru mjög meðvitaðir um að það væri mikið undir en við þurfum að gæta þess að fara eins í alla leiki og í kvöld, með virðingu fyrir öllum andstæðingum og taka alla alvarlega.  Kannski fá menn auka orku í svona stórleiki en þeir svöruðu því mjög vel og sýndu frábæra frammistöðu á þessum erfiða útivelli, sagði þjálfarinn og nú væri búið að taka út skekkju í stöðutöflunni, sagði þjálfarinn og ánægður með að nú sé ekki skekkja í deildinni.

„Við höfum verið að bíða eftir þessum leik, sem var frestað óvænt og því alltaf einum eða tveimur leikjum á eftir Víkingum í nokkurn tíma, sem skekkir aðeins stöðutöfluna svo við vorum meðvitaðir um að þegar við náum að loka því gati og vera með eins marga leiki og Víkingur og eins nálægt þeim og hægt er.  Þá þarf að safna stigum alls staðar þar sem þau eru í boði og þetta var einn af þessum dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert