Börkur skýtur á Arnar

Arnar Gunnlaugsson.
Arnar Gunnlaugsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Edvard Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, skýtur föstum skotum á Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings úr Reykjavík, vegna rauða spjaldsins sem sá síðarnefndi fékk í leik liðsins gegn Vestra um síðustu helgi.

Arnar missti stjórn á skapi sínu eftir jöfnunarmark Vestra í 1:1-jafntefli og fékk fyrir vikið beint rautt spjald. Í vikunni var hann svo úrskurðaður í þriggja leikja bann.

„Þegar góður vinur dómara fékk reiði- og frekjukast eingöngu til að fórna sér fyrir alla leikmenn, þjálfara og dómara svo að lokakafli Íslandsmótsins verði sá besti í sögunni.

Eitthvað varð að gera segir hann!“ skrifaði Börkur, eins og hann er ávallt kallaður, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þar lagði Börkur út af viðtali Arnars við Fótbolta.net þar sem þjálfarinn sagði:

„Ég tek þessu banni alveg. Ég gerði mig náttúrulega að fífli fyrir að tjá mig um atvik, sem ég tek sérstaklega fram að endaði á að vera frábær tækling og ekkert að henni, en það voru nokkrir hlutir sem höfðu pirrað mig illilega, bæði í leiknum gegn Vestra og í leikjum á undan. Ég hef vanalega verið góður vinur dómaranna, að því leyti að ég er ekki mikið að tjá mig eftir leiki, en stundum springur maður.

„Ég vona að það sem kemur út úr þessu sé að bæði leikmenn, þjálfarar og dómarar taki sig almennilega á svo þetta verði besti lokakafli í sögu Íslandsmótsins. Ef að þetta bann hjálpar til þess, þá verð ég glaður. Það þurfti eitthvað að gera, það var of mikið af kvörtunum, of mikið af ákvörðunum og líka mistök hjá okkur þjálfurum og leikmönnum. Það er fínt inn á milli að vekja menn aðeins upp.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert