Eins og beljur á svelli

Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH.
Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH var að vonum kampakát eftir 4:3 endurkomu útisigur gegn botnliði Keflavíkur í Keflavík í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld.

Það var haustveður, rigning og vindur suður með sjó þar sem að liðin áttu sitthvorn hálfleikinn. Keflavík var 3:0 yfir í hálfleik og FH-ingar gerðu þrefalda breytingu í seinni hálfleik og náðu að vinna að lokum 4:3 í alveg hreint ótrúlegum leik.

Í hálfleik var greinilegt að þjálfarateymið þurfti að hrista upp í hlutunum og kveikja almennilega í liðinu svo ekki myndi fara verr. Arna var spurð um hálfleiksræðuna þegar liðið var 3:0 undir í hálfleik.

Arna Eiríksdóttir
Arna Eiríksdóttir Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég hélt að Keflavík myndi vera varnarsinnaðri, koma meira varlega í leikinn. Hlynur (Hlynur Svan Eiríksson þjálfari FH) er venjulega sá sem öskrar mest og hann var bara búinn að taka rólega ræðu en svo kom Guðni (Guðni Eiríksson þjálfari FH) með hárblásarann og það lyfti okkur uppá tærnar," sagði Arna við mbl.is.

Hvernig var annars sýn FH-liðsins á leikinn?

„Við nálguðumst leikinn eins og hvern annan leik. Við erum vissulega með gras í Kaplakrika eins og Keflvíkingar og erum vanar að vera í aðstæðum þar sem völlurinn er laus í sér eftir rigningar.

Við vorum hins vegar eins og beljur á svelli í fyrri hálfleik, vorum rennandi út um allt og þetta var mjög skrýtinn fyrri hálfleikur. Keflavík átti þrjár frábærar sóknir og skoruðu þrjú mörk.

Svo vorum við búnar að venjast betur vellinum í seinni hálfleik, búnar að átta okkur betur á hvernig boltinn var að skoppa og svona og þá byrjaði allt að smella hjá okkur." sagði Arna að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert