Erum að byggja eitthvað mjög sérstakt hérna

John Andrews, þjálfari Víkings.
John Andrews, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

John Andrews var að vonum sáttur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 5:1 sigur liðsins gegn Tindastól í 17. Umferð Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld.

„Það eru ekki mörg lið sem geta mætt Tindastól og náð svona góðum úrslitum. Við vorum búnar að kynna okkur leik þeirra þegar þær mættu Þrótti í síðustu viku og okkur fannst þær frábærar. Ég veit að Þróttur vann 2:1. Tindastóll hefur marga frábæra leikmenn í sínum röðum svo við þurftum að spila vel til að eiga séns,“ sagði Andrews.

Þið byrjið leikinn frábærlega og eruð komin með 4:0 forystu eftir aðeins 23 mínútur, var það hluti af planinu?

„Eins heimskulega og það hljómar, já. Við ætluðum að keyra á þær mjög snemma. Þær ferðuðust langa leið hingað og við ætluðum að setja pressu á þær strax í byrjun og skora nokkur mörk snemma,“ sagði Andrews

Víkingur fékk á sig víti í lok leiksins. Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir varði vítið frá Elise Anne Morris en Elísa Bríet Björnsdóttir fylgdi eftir. Andrews fannst svekkjandi að sjá liðið halda ekki hreinu.

„Það var mjög svekkjandi því við höfum unnið mikið síðustu vikur í að bæta varnarleik okkar. Katla varði vítaspyrnuna vel og það er alveg magnað hvað tölfræði hennar í vítaspyrnum er góð. En það er svekkjandi að við náðum ekki frákastinu,“ sagði Andrews.

Þið eruð nýliðar í Bestu deildinni og sitjið nú í fjórða sæti, jöfn á stigum við Þór/KA í þriðja sæti. Myndirðu segja að tímabilið væri yfir þínum væntingum?

„Mig langar að segja já en það er það ekki. Okkur finnst við vera byggja eitthvað mjög sérstakt hérna hjá félaginu og við óttumst engan. Við mætum öllum liðum með því hugarfari að þetta sé bikarúrslitaleikur, sama hvort það sé toppliðið eða botnliðið,“ sagði Andrews að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert