Jóhannes Karl Sigursteinsson er að rétta Stjörnuskútuna af í Bestu deild kvenna í fótbolta. Lið hans er nú komið í 6. sæti deildarinnar eftir sterkt 2:2-jafntefli gegn Þór/KA á Akureyri í kvöld.
Stjörnukonur áttu erfiðan fyrri hálfleik en komust inn í klefa með 1:1 stöðu. Þær leiddu svo 2:1 stóran hluta seinni hálfleiks en Þór/KA jafnaði metin fyrir leikslok.
Jóhannes var inntur eftir því hvort stig í kvöld hafi verið ásættanlegt.
„Já, það verður bara að segja það. Við spiluðum ekki vel í fyrri hálfleiknum og vorum bara heppin að vera með 1:1 í hálfleik. Frammistaðan í seinni hálfleik verðskuldaði alveg stig og við tökum því.“
Þannig var þetta einmitt og í raun lítið meira að segja um leikinn en Jóhannes slapp ekki alveg við frekari spurningar.
„Við vorum í miklu veseni framan af, vorum ekki að færa rétt og unnum hvorki fyrsta né annan bolta. Það var því margt sem við þurftum að laga í hálfleik og það verður að hrósa leikmönnum fyrir að bæta leik liðsins og sýna þannig karakter.“
Eins og staðan er núna í deildinni þá verður hreinn úrslitaleikur 25. ágúst á milli Stjörnunnar og Þróttar um sjötta sætið í deildinni og að vera í efri hlutanum þegar deildinni verður skipt upp. Stjarnan er stigi á undan Þrótti en Þróttur á leik inni gegn Blikum. Jóhannes er spenntur fyrir þeim leik.
„Það verður stemning þar sem við fáum hálfgerðan bikarúrslitaleik í lokaumferðinni og liðin bjóða örugglega upp á hasar þar. Það er svo sama hvernig fer og hvoru megin við verðum þá bíða áskoranir í þeim leikjum sem koma í kjölfarið.
Við viljum að sjálfsögðu vera í efri hlutanum, fá fleiri leiki og stærri lið að glíma við. Það yrði gaman að komast enn hærra og hafa líka áhrif í titilbaráttu Vals og Breiðabliks“ sagði Jóhannes að lokum.