„Höfum ekkert efni á því að vera að grenja“

Liðsmenn Þórs/KA fagna í kvöld.
Liðsmenn Þórs/KA fagna í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það er alltaf gaman að spjalla við Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfara Þórs/KA í Bestu-deild kvenna. Lið hans gerði 2:2 jafntefli við Stjörnuna í kvöld og munu norðankonur og stuðningsfólk þeirra eflaust hugsa um öll dauðafærin sem fóru forgörðum hjá liðinu í fyrri hálfleik.

„Ég er ánægður með að hafa komið til baka eftir að hafa lent 2:1 undir í seinni hálfleik. Mér finnst samt að við höfum farið illa af ráði okkar. Stjarnan gerði vel og ég tek ekkert af þeim. Það var alla vega gott að ná þessu marki í lokin og jafna.

Manni leið þannig í hálfleik að við ættum að vera búin að setja þennan leik í rúmið, búin að breiða yfir og slökkva ljósið. Samt er staðan 1:1. Við erum að skora ágætlega, tvö, þrjú mörk í leik en vandinn er að við erum alltaf að fá á okkur mörk“

Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jöfnunarmark Stjörnunnar í fyrri hálfleik var bara gjöf frá Þór/KA og það virðist hafa gefið Stjörnunni góða innspýtingu inn í seinni hálfleikinn. Það mark verður því að teljast afar dýrt.

„Það er bara oft þegar mörk eru skoruð þá er gjarnan einhver sem gerir mistök og það var í þessu tilfelli“ sagði Jóhann greinilega gramur.

3Ég held að þetta hafi verið fjörugur leikur. Ég vona að fólkið sem kom hérna hafi haft nokkuð gaman af. Við fórum reyndar illa með færin og þá er ekkert gaman en við vorum alla vega að búa þau til. Ég er bara ánægður með stelpurnar.

Það er erfitt að vera annað. Stjörnuliðið er í hörkubaráttu, sinni baráttu og hefur snúið gengi sínu heldur betur við. Þetta er bara flott lið. Við eigum engan rétt og höfum ekkert efni á því að vera að grenja yfir stigi á móti þeim.

Nú er einn leikur eftir í deildinni áður en henni verður skipt upp. Þór/KA er í 3. sætinu en önnur lið eru að nálgast.

Sandra María Jessen skallar að marki Stjörnunnar í kvöld.
Sandra María Jessen skallar að marki Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við þurfum að klára lokaleikinn til að halda 3. sætinu. Það var allt of snemma ljóst að það yrði okkar markmið. Það myndi þýða að við fáum þrjá heimaleiki í lokaumferðunum en ekki tvo eins og í fyrra. Við verðum bara að skríða saman og gera okkur klár í Fylkisleikinn um aðra helgi. Við ætlum að fá þetta 3. sæti.“

Burtséð frá því hvað verður þá taka við fimm leikir í viðbót. Jóhann var inntur eftir því hvort hann væri farinn að hugsa um það hvernig hann ætlaði að ráðstafa þeim leikjum.

„Ég væri náttúrulega að ljúga ef ég segði að við værum ekkert byrjuð að spá í það. Við erum það lið sem gerir flestar skiptingar. Það er ástæða fyrir því. Við erum með sterkan hóp og treystum mörgum leikmönnum.

Þarna verður engin undantekning gerð. Úrslitakeppnin gæti alveg farið í þá áttina að við myndum reyna að fjölga mínútunum hjá þeim sem eru óreyndari og undirbúa þannig næsta tímabil.“

Er það ekki einmitt staðan núna að hefja þann undirbúning?

„Jú, algjörlega. Auðvitað viljum við skora mörk, vinna og fá fleiri stig og reyna að halda í þriðja sætið. Við erum samt líka með hitt í huga. Ég held að hin liðin, sem eru ekki að keppa um titilinn, verði flest á þeim buxunum. Við ætlum alla vega að gera þetta þannig að það verða fleiri mínútur hjá óreyndari leikmönnunum“ sagði Jóhann Kristinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert