Lítum á úrslitaleikinn sem venjulegan leik

Pétur Pétursson þjálfari Vals og Nik Chamberlain þjálfari Breiðabliks.
Pétur Pétursson þjálfari Vals og Nik Chamberlain þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við horfum í raun á þennan leik eins og hvern annan. Auðvitað er þetta úrslitaleikur en við viljum bara líta á hann sem venjulegan leik,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, fyrir bikarúrslitaleik liðsins gegn Val á Laugardalsvelli annað kvöld.

Valur er mjög erfiður andstæðingur. Við höfum þegar mætt þeim tvisvar á tímabilinu og það hafa verið góðir leikir þrátt fyrir veðrið. Við lítum til þess að mæta í þennan leik til þess að sýna góða frammistöðu,” hélt hann áfram.

Nik býst við því að liðin muni nálgast leikinn með svipuðum hætti.

„Við þurfum að sjá hvort við þurfum ekki að gera eitthvað aðeins öðruvísi taktískt en við gerðum í síðasta leik gegn Þór/KA. Ég býst við að bæði lið vilji stýra leiknum, halda boltanum og skapa sér færi.

Hvernig sem fer býst ég við góðum leik þar sem bæði lið munu spila boltanum með jörðinni. Svo mun þetta snúast um hvort liðið getur gert það aðeins betur og nýtt færin sín.“

Nýja teymið vill byrja á sigri

Breiðablik tekur þátt í sínum fjórða úrslitaleik í röð en hefur tapað síðustu tveimur eftir að hafa orðið bikarmeistari árið 2021, þegar Blikar unnu Þrótt sem Nik þjálfaði þá. Mætir lið Breiðabliks sært til leiks vegna tveggja tapa í röð í bikarúrslitum?

„Ekki frá mínum sjónarhóli. Fyrir mér er þetta glænýtt teymi þó liðið hafi komist í úrslit. Það er nýtt þjálfarateymi og allnokkrir nýir leikmenn þó nokkrar af stelpunum hafi verið í úrslitum undanfarin ár.

Hvað mig varðar erum við ekki að líta til þess að síðasta ár eða árið þar á undan skipi sér einhvern sess í úrslitaleiknum í ár. Hjá nýja teyminu er þetta í fyrsta skiptið á nýju tímabili. Við horfum þannig á þetta og viljum byrja á sigri.“

Hefur ekki áhrif á restina af tímabilinu

Breiðablik og Valur eiga í harðri toppbaráttu í Bestu deildinni þar sem munar aðeins einu stigi en Nik telur þó ekki að úrslit leiksins annað kvöld muni koma til með að hafa áhrif á þá baráttu.

„Ég held ekki. Við eigum enn sjö leiki eftir í deildinni á tímabilinu. Það á enn eftir að spila fjölda leikja. Við þurfum fyrst að spila úrslitaleikinn og ég held að hann muni ekki hafa mikil áhrif á restina af tímabilinu.

Við eigum næst erfiðan útileik gegn Þrótti og Valur á Fylki á heimavelli þannig að kannski gæti þetta breyst strax eftir úrslitaleikinn. En ef við vinnum alla sjö leikina sem eru eftir í deildinni vinnum við Íslandsmeistaratitilinn.

Hvað sem gerist á föstudag gerist. Hvort sem við vinnum eða töpum munum við sjá til þess að hugarfarið verði rétt þegar deildin heldur áfram,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert