Tvö bestu lið landsins mætast

Elísa Viðarsdóttir og Ásta Eir Árnadóttir.
Elísa Viðarsdóttir og Ásta Eir Árnadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur og Breiðablik mætast í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, í stórleik tveggja bestu liða landsins á Laugardalsvelli annað kvöld. Breiðablik tekur þátt í sínum fjórða bikarúrslitaleik í röð en liðið hefur tapað síðustu tveimur úrslitaleikjum eftir að hafa orðið bikarmeistari árið 2021.

Valur er ríkjandi Íslandsmeistari auk þess að vera á toppi Bestu deildarinnar sem stendur. Breiðablik er þar í öðru sæti, einu stigi á eftir Val og toppbaráttan því í algleymingi.

Liðin mættust síðast í bikarúrslitaleik árið 2022 þegar Valur hafði betur, 2:1. Blikar eiga því harma að hefna. Á morgun mætast liðin í úrslitaleik bikarkeppninnar í tíunda sinn. Í viðureignunum níu til þessa hefur Valur unnið fimm leiki og Breiðablik fjóra.

Áður en Valur varð bikarmeistari árið 2022 hafði liðið síðast orðið bikarmeistari árið 2011. Breiðablik varð í millitíðinni bikarmeistari fjórum sinnum, 2013, 2016, 2018 og 2021.

Skemmtilegasti leikur ársins

Valur og Breiðablik eru langsigursælustu félögin í bikarkeppninni kvennamegin þar sem Valur hefur orðið bikarmeistari fjórtán sinnum og Breiðablik þrettán sinnum. Á morgun gefst Val tækifæri til að bæta fimmtánda titlinum í safnið á meðan Breiðablik freistar þess að jafna titlafjöldann.

„Þetta leggst vel í okkur. Við höfum verið að æfa í allan vetur og sumar og gert allt til þess að stefna að því að koma okkur á Laugardalsvöll.

Fyrsta skrefinu í átt að markmiðinu er náð og við verðum bara að taka þetta alla leið,“ sagði Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals í samtali við Morgunblaðið á kynningarfundi fyrir leikinn á Laugardalsvelli í gær.

Í svipaðan streng tók Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks: „Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta er að mínu mati skemmtilegasti leikur ársins. Við erum ótrúlega spenntar að koma aftur á Laugardalsvöll.“

Lítið sem sker úr um úrslit

Spurðar hvers konar leik þær byggjust við annað kvöld voru Elísa og Ásta Eir sammála um að honum myndi svipa til fyrri leikja liðanna.

„Ætli þetta verði ekki bara eins og flestir leikir okkar á milli?“ spurði Elísa og hélt áfram: „Þeir hafa verið mikið stál í stál og leikirnir ráðast oft á einhverjum smáatriðum.

Liðin þekkjast út og inn þannig að það er oft lítið sem þarf til að skera úr um úrslit. Svo er þetta oft líka spurning um dagsform og hvort liðið mætir beittara til leiks.“

Leikjum liðanna í Bestu deildinni í sumar lauk með naumum heimasigrum; Breiðablik vann 2:1 á Kópavogsvelli og Valur 1:0 á Hlíðarenda.

„Ég get alveg búist við svipuðum leik og eru búnir að vera í sumar, tveir mjög taktískir leikir og lokaðir en líka leikir tveggja hálfleikja. Bæði lið eru mjög góð varnarlið þannig að það kæmi mér ekkert á óvart.

Ég vona samt sem áður að þetta verði góð skemmtun fyrir áhorfendurna og að við fáum mörk!“ sagði Ásta Eir og hló.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert