Úrslitakeppnin byrjar núna

Halldór Jón Sigurðsson, oftast þekktur sem Donni, er þjálfari Tindastóls.
Halldór Jón Sigurðsson, oftast þekktur sem Donni, er þjálfari Tindastóls. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Vonbrigði með byrjunina,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, oftast þekktur sem Donni, þjálfari Tindastól eftir 5:1-tap gegn Víking í 17. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld.

Tindastóll byrjaði leikinn ekki vel og var 4:0 undir eftir aðeins 23 mínútur.

„Við gefum tóninn fyrir leikinn í heild sinni í byrjun. Það var bara ömurleg byrjun sem kostaði þennan leik og við gáfum frekar auðveld mörk frá okkur og það gerði allt töluvert erfiðara en það þurfti að vera. Víkingur átti þennan sigur eðlilega fyllilega skilið,“ sagði Donni.  

Þið byrjið leikinn illa og fáið fjögur mörk á ykkur á aðeins 23 mínútna kafla, hvað fór úrskeiðis í ykkar leik?

„Það er ekkert hægt að útskýra það eitthvað sérstaklega. Þær skora eftir mistök hjá okkur og góð einstaklingsgæði hjá þeim. Skora góð mörk og úr verður sem verður,“ sagði Donni.

Er eitthvað jákvætt sem þú getur tekið úr leiknum í dag?

„Seinni hálfleikurinn fór 1:1 og við töluðum um það í hálfleik að enda leikinn almennilega og skipuleggja okkur betur. Þær fengu töluvert færri færi í seinni hálfleik þannig ég get verið ánægður með að stelpurnar gáfust aldrei upp og lögðu allt í seinni hálfleikinn. Það er eitthvað sem við getum byggt á í framhaldinu,“ sagði Donni

Þið eruð núna í fallbaráttu og eigið Keflavík í lokaleik áður en deildinni verður skipt í neðri og efri hluta. Hvernig leggst það verkefni í ykkur?

„Úrslitakeppnin byrjar fyrir okkur núna. Við eigum Keflavík næst sem er sex stiga leikur og eftir það byrjar úrslitakeppnin. Við leggjum alla áherslu á að nú sé úrslitakeppnin byrjuð og núna er eins gott að leikmenn séu á tánum og séu tilbúnir í byrjun leiks og í föstum leikatriðum,“ sagði Donni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert