Valsmenn fengu færin en Blikar mörkin

Orri Sigurður Ómarsson úr Val og Davíð Ingvarsson hjá Breiðabliki …
Orri Sigurður Ómarsson úr Val og Davíð Ingvarsson hjá Breiðabliki eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

Skák kemur upp í hugann þegar sagt er frá viðureign Vals og Blika að Hlíðarenda í 18. umferð efstu deildar karla í kvöld því liðin skiptust á að hafa völdin og þá næstum algerlega.  Blikar áttu lokaleikina og unnu 2:0.

Eru þá komnir með 37 stig, þremur á eftir Víkingum í efsta sætinu og sex stigum á undan Val.

Þó opnu færin hafi vantað er ekki hægt að segja að leikurinn hafi farið rólega af stað því bæði lið lögðu allt kapp á að ná undirtökunum og þar voru gestirnir öflugri enda átti  vörn Vals oft í  basli, hrakin inn að markteig.

Valsmenn hristu það af sér, náðu vopnum sínum og byrjuðu að sækja, svo vel að þeir voru fljótlega búnir að ýta Blikum aftar á völlinn.

Svo vel að á 15. mínútu fékk fyrirliðinn Kristinn Freyr boltann í gegnum vörn Blika og rétt náði að skjóta af stuttu færi en Anton Ari Einarsson markmaður Blika varði og þurfti svo að snúa vil til að góma boltann, sem hann gerði.

Næsta færi kom á 17. mínútu þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson komst upp vinstri kantinn að marki Blika, gaf svo þvert fyrir og Gylfi Þór Sigurðsson kom aðvífandi, náði skoti af markteigslínu en Anton Ari markmaður tók mikið viðbragð og varði af stuttu færi.

Þriðja færið átti Patrick Pedersen með góðu skoti úr vítateignum en Anton Ari varði glæsilega í horn.

Þá var aftur skipt um stjórn og nú voru Blikar ráðandi.

Þá fékk Breiðablik fyrsta opna færið sitt þegar Aron Bjarnason á 28. mínútu var með boltann inni í vítateig Vals hægra megin og lét vaða.  Ögmundur Kristinsson varði en boltinn fór svo aftur fyrir endalínu.

Síðan hver sóknin aðra en það gekk ekki nógu vel hjá Blikum að búa til þessi dauðafæri því vörn Vals var glaðvakandi og leyfði það ekki.  Það mætti svo sem segja að hornspyrnur Höskuldar Gunnlaugssonar hafi skapað mestu hættuna.

Talandi um það.  Þá tók Höskuldur horn frá vinstri á 38. mínútu, boltinn kom niður alveg við marklínuna hægra megin þar sem var mikil þvaga en Damir Muminovic náði til boltans og þrumaði af stuttu færi í gegnum þvöguna upp í þaknetið.  Staðan 0:1.

Fyrsta næstum-því færi síðari hálfleiks kom á 47. mínútu þegar Ísak Snær Þorvaldson slapp inn fyrir vörn Vals en Orri Sigurður Ómarsson varnarmaður Vals tæklaði hann glæsilega og náði boltanum.

Blikar voru ef eitthvað er meira með boltann og duglegri við að byggja upp sóknir.  Úr einni slíkri á 67. mínútu kom næsta mark Blika, þá sparkaði Höskuldur boltanum langt innfyrir vörn Vals og Ísak Snær Þorvaldsson stakk Orra varnarmann af, rakti boltann inn í vítateig vinstra megin og skaut undir Ögmund í markinu.  Staðan 0:2.

Þegar leið að lokum voru Valsmenn mest í sókn en alveg eins og hinu megin, þá stökk vörn Blika fyrir allar sendingar og öll skot svo færin létu á sér standa.

Næsti leikur liðanna í deildinni er á mánudaginn þegar Valur sækir FH heim í Hafnarfjörðinn en Breiðablik fær Fram í heimsókn.

Valur 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. +4 bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert