Ásta um systur sína: Hún labbar ekki svona auðveldlega í liðið!

Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks …
Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks með bikarinn á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, er ánægð með að yngri systir sín Kristín Dís sé gengin aftur til liðs við félagið eftir dvöl í atvinnumennsku hjá Bröndby í Danmörku.

„Já, það er mjög gaman og gott fyrir hópinn. Hún er náttúrlega mjög góður leikmaður og styrkir okkur mikið. Hún er að koma með góða reynslu úr atvinnumennsku og þekkir það að vinna titla.

Þetta er frábært fyrir mig og frábært fyrir liðið,“ sagði Ásta Eir í samtali við mbl.is á kynningarfundi fyrir bikarúrslitaleik Breiðabliks og Vals í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á miðvikudag.

Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli klukkan 19.15 í kvöld.

Þurfum að dreifa okkur í varnarlínunni

Hún hefur stærstan hluta ferilsins leikið í stöðu hægri bakvarðar en hefur leikið í miðverði á yfirstandandi tímabili. Kristín Dís leikur hins vegar einnig í stöðu miðvarðar.

Þýðir koma systur þinnar að þú færir þig aftur í bakvörðinn?

„Nei, hún labbar ekki svona auðveldlega inn í þetta!“ sagði Ásta Eir og hló.

„Nei, það er ekki planið. Vissulega leysti hún mig af um helgina og gerði það mjög vel. En nei, við þurfum aðeins að dreifa okkur í varnarlínunni og það þarf bara að koma í ljós hvernig það verður,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert