Auðvitað vill maður alltaf spila

Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks.
Elísa Viðarsdóttir fyrirliði Vals og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, sneri aftur á knattspyrnuvöllinn aðeins rúmlega tveimur og hálfum mánuði eftir að hún eignaðist sitt annað barn fyrr á árinu.

Elísa hefur ekki verið í jafn stóru hlutverki og áður hjá Val eftir endurkomuna en lætur þó ekki deigan síga.

„Auðvitað vill maður alltaf spila en ég treysti þjálfaranum til að velja besta liðið á hverjum tímapunkti. Ég er að vinna í því að koma mér á góðan stað. Ég er á mjög góðri leið og er að nálgast mjög gott form.

Ég veit það fyrir víst að ef Pétur [Pétursson þjálfari] og teymið þarf á mér að halda mun ég stíga inn í hvaða hlutverk sem mér er ætlað,“ sagði Elísa í samtali við mbl.is á kynningarfundi bikarúrslitaleik Vals og Breiðabliks í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal á miðvikudag.

Hjálpa liðinu á annan hátt þangað til

Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli klukkan 19.15 í kvöld.

„Í dag er ég kannski í ólíku hlutverki en ég er vön en það er kannski ástæða fyrir því. Ég reyni að sinna því hlutverki vel.

Svo ef að kallið kemur inn á völlinn mun ég stíga inn í það hlutverk líka og gera það eins vel og ég get. Þangað til hjálpa ég liðinu á annan hátt,“ sagði hún einnig.

Elísa hefur spilað fjóra leiki í Bestu deildinni og tvo leiki í bikarkeppninni á yfirstandandi tímabili. Í öllum nema einum bikarleik hefur hún komið inn á sem varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert