Enginn sáttur við það að sitja á bekknum

Valskonur fagna fyrsta marki leiksins.
Valskonur fagna fyrsta marki leiksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekki hægt að lýsa þessari tilfinningu,“ sagði Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Breiðabliki í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu mörk Vals í síðari hálfleik en Karitas Tómasdóttir minnkaði muninn fyrir Breiðablik í uppbótartíma.

„Þetta er í annað sinn sem ég tek þátt í úrslitaleik bikarkeppninnar og ég hef tapað einu sinni og unnið einu sinni. Það er klárlega skemmtilegra að vinna en að tapa. Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur en við stóðum okkur mjög vel í dag fannst mér. Við vorum sterkari aðilinn í síðari hálfleik og mér fannst markið liggja í loftinu. Þetta var geggjaður leikur, tveggja góðra liða, og heilt yfir hörkuleikur,“ sagði Berglind Rós.

Samkeppni um allar stöður

Valsliðið er gríðarlega vel mannað og er mikil samkeppni innan liðsins um sæti í byrjunarliðinu.

„Það er mikil samkeppni um allar stöður en þetta er samkeppni sem er af hinu góða. Auðvitað er enginn sáttur við það að sitja á bekknum en á sama tíma þá taka allir sínu hlutverki innan liðsins og eru þannig duglegir að hvetja liðsfélagana áfram. Við gerum hvor aðra betri,“  sagði Berglind Rós í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert