„Spark í rassinn fyrir framhaldið“

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir og Haley Whitaker eigast við á Laugardalsvelli …
Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir og Haley Whitaker eigast við á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er svekkjandi, erfitt og leiðinlegt,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu mörk Vals í síðari hálfleik en Karitas Tómasdóttir minnkaði muninn fyrir Breiðablik í uppbótartíma.

„Við enduðum fyrri hálfleikinn á mjög góðum nótum og mér finnst við ekki mæta nægilega vel stemdar til leiks í seinni hálfleikinn. Við ætluðum að mæta af sama krafti og við lukum fyrri hálfleiknum en það gekk ekki eftir.

Við vorum með þær í fyrra hálfleik og hefðum hæglega getað skorað eitt til tvö mörk fannst mér. Þetta mark sem við fáum á okkur líka, þetta var algjört trúðamark, og það sló okkur út af laginu. Við náðum að klóra í bakkann en það var bara of seint,“ sagði Ásta Eir.

Ömurlegt að tapa

Þetta var þriðji úrslitaleikurinn í röð sem Blikaliðið tapar en liðið tapaði fyrir Val árið 2022, fyrir Víkingi í fyrra og nú aftur fyrir Val en Blikar urðu síðast bikarmeistarar árið 2021 eftir sigur gegn Þrótti.

„Tilfinningin er allt sú sama. Það er ömurlegt að tapa úrslitaleikjum og við mættum ekki hingað til leiks með það á bakvið eyrað að við hefðum tapað úrslitaleiknum síðustu tvö ár. Við unnum hérna fyrir þremur árum síðan og við ætluðum að vinna hérna í kvöld.

Auðvitað er extra svekkjandi að tapa úrslitaleik og allt það en við ræddum það um leið og leikurinn var flautaður af að þetta væri spark í rassinn fyrir framhaldið. Við ætlum okkur að klára þetta Íslandsmót á góðum nótum,“ bætti Ásta Eir við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert