„Það er erfitt að taka þessu tapi,“ sagði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu mörk Vals í síðari hálfleik en Karitas Tómasdóttir minnkaði muninn fyrir Breiðablik í uppbótartíma.
„Mér fannst við fá færi í þessum leik og ef við hefðum náð að skora þetta fyrsta mark þá hefðum við mögulega getað klárað leikinn. Við fáum frábært færi til þess að komast yfir en þær bjarga á línu. Þær bruna svo upp í sókn og skora þannig að þetta var leikur tveggja góðra liða og úrslitin réðust á litlu hlutunum,“ sagði Nik.
Þetta er í annað sinn sem Nik kemst alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar en hann stýrði Þrótti úr Reykjavík árið 2020 þegar liðið tapaði fyrir Breiðabliki á Laugardalsvelli, 4:0.
„Síðast þegar ég komst í úrslitin þá áttum við eitt gott augnablik, gegn Breiðabliki, en þau voru talsvert fleiri í kvöld. Þetta tap svíður talsvert meira en síðast. Við fengum færin í kvöld og hlutirnir hefðu getað dottið með okkur en það gerðist ekki.
Við erum með ungt lið og við munum læra af þessu, þetta fer í reynslubankann. Við ætlum að verða Íslandsmeistarar og tapið hér í kvöld ætti að gefa okkur orkuna sem við þurfum til þess að fara alla leið í Íslandsmótinu,“ bætti Nik við í samtali við mbl.is.