„Það er skemmtilegra að vinna en að tapa og ég verð aldrei þreyttur á því að vinna bikara,“ sagði Pétur Pétusson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Breiðabliki í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvelli í kvöld.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Jasmín Erla Ingadóttir skoruðu mörk Vals í síðari hálfleik en Karitas Tómasdóttir minnkaði muninn fyrir Breiðablik í uppbótartíma.
„Þetta var góður leikur hjá tveimur góðum liðum en heilt yfir fannst mér við vera með yfirhöndina í kvöld. Auðvitað fengu Blikarnir sín færi, og þau voru hættuleg, en mér fannst við ívið sterkari,“ sagði Pétur.
Valskonur hafa haft mikla yfirburði hér á landi undanfarin ár en liðið varð Íslandsmeistari þriðja árið í röð á síðustu leiktíð og situr sem stendur í efsta sæti deildarinnar með 43 stig þegar ein umferð er eftir af hefðbundnu deildarkeppninni.
„Það voru fjórtán breytingar á leikmannahópnum í fyrra og ætli það sé ekki besta alltaf bara að fá nýja leikmenn inn?“ sagði Pétur í léttum tón. „Að öllu gríni slepptu samt þá höfum við búið til ákveðna menninga innan félagsins með Elísu Viðarsdóttur og eldri leikmönnum liðsins. Ef við ætlum að gera þetta þá gerum við það almennilega og þeir sem að nenna því ekki geta verið annarsstaðar.“
Valsmenn hafa á að skipa gríðarlega öflugum leikmannahóp og eru nánast með landsliðsmenn í hverri einustu stöðu, og á bekknum.
„Þeir leikmenn sem eru á bekknum eiga auðvitað ekki að vera sáttir en þegar leikmenn koma til okkar þá er þeim tilkynnt það strax að þeir muni ekki fá neitt gefins hjá félaginu. Ef þú ert á bekknum þá ertu á bekknum og þarft að berjast fyrir því að komast inn á völlinn. Þannig er menningin hérna en það eru aldrei allir sáttir með það, og þannig á það líka að vera.“
Valskonur mæta Fylki í Bestu deildinni á þriðjudaginn kemur og fá því lítinn tíma til þess að fagna sigrinum.
„Það verður ekki fagnað í kvöld. Það er leikur á þriðjudaginn þannig að það er ekkert partí í kvöld,“ bætti Pétur léttur við í samtali við mbl.is.