Óskar: Frammistaða sem hægt er að byggja á

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Óskar Hrafn Þorvaldsson, nýráðinn þjálfari KR, var að vonum vonsvikinn er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir tap sinna manna gegn Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu á Ísafirði i dag.

Fyrstu viðbrögð eftir leik?

„Það eru blendnar tilfinningar að mörgu leyti. Mér fannst við spila þennan leik mjög vel. Mér fannst við kom okkur í frábærar stöður og fannst við leysa 5-4-1 lágblokkina þeirra vel.

Við sköpum okkur sex til sjö færi og kannski hissa að við náðum ekki að skora. Að stórum hluta er ég mjög sáttur við spilamennsku liðsins með boltann og við erum bara búnir með tvær æfingar saman.

Mér finnst ég sjá mjög góða hluti sem er vel hægt að byggja á. Á móti kemur að mörkin sem þeir skora þessi tvö mörk í þremur til fjórum færum í fyrri hálfleik voru full auðveld.

Síðan í seinni hálfleik riðlaðist leikurinn aðeins þegar við þurftum að skipta mönnum úr stöðum. Þess vegna misstum við kannski aðeins jafnvægi úr liðinu. Klárt mál að þetta er leikur sem við getum byggt ofan á."

Fyrstu 20 mínútur voru þið með öll völd og náðuð að þrýsta Vestra niður en síðan kom fyrsta markið upp úr engu, var það kjaftshögg?

„Auðvitað er það kjaftshögg þegar þú færð á þig mark og ert búinn að vera sterkari aðilinn, það er klárt mál. Mér finnst við svara því vel en það var kannski öllu verra að fá þarna annað markið á sig rétt fyrir lok hálfleiksins. Það var pínu þungt.

Aftur fannst mér við koma sterkir inn í seinni hálfleikinn og fundum lausnir við ágætlega skipulögðu Vestra liði. Við þurfum samt að nýta færin og það er næsta mál sem við  þurfum að fara í.

Síðan var líka misskilningur sem átti sér stað í staðsetningum sóknar og varnarlega í öftustu línu sem gerir okkur auðsæranlega í skyndisóknum. Það er svo sem hlutur sem er auðvelt að laga. Eins og sárt og leiðinlegt er að tapa þessum leik, er þetta frammistaða sem hægt er að byggja á."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert