Fyrirliði HK ósáttur: Ekki boðlegt

HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson með boltann í kvöld.
HK-ingurinn Birkir Valur Jónsson með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK var allt annað en kátur með frammistöðu sinna manna eftir sárt 2:0 tap gegn Fylki í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í kvöld. Með tapinu færist HK niður í botnsæti deildarinnar á meðan Fylkir lyftir sér upp fyrir HK.

Mbl.is ræddi við Leif strax eftir leik og spurður að því hvað hafi valdið því að HK tapaði leiknum manni fleiri sagði Leifur þetta:

„Niðurstaðan er að við erum á botninum eftir þennan leik og það er ömurlegt. Ef einhvern tímann þá þurfum við núna að berja okkur saman fyrir næsta leik því það er ekki boðlegt að tapa hérna einum fleiri í 35 mínútur á heimavelli gegn liði sem við erum að slást við upp á líf og dauða. Ef þetta gefur okkur ekki spark í afturendann þá veit ég ekki hvað."

Leifur Andri Leifsson
Leifur Andri Leifsson Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Hvað veldur því að þið tapið hér í kvöld?

„Liðsheildin tapaði í kvöld. Varnarleikurinn var ekki góður og síðan áttu þeir alla seinni bolta. Menn þurfa að vera miklu ákafari í baráttunni. Þeir voru að berjast fyrir því sama og við en þeir voru bara ofan á í seinni boltum í dag."

Ljósið í myrkrinu er kannski það að HK á leik til góða gegn KR á fimmtudag ekki satt?

„Við horfum ekki á það þannig. Það er óþolandi að tapa hérna á heimavelli fyrir liði sem við erum í baráttu við um tilverurétt í deildinni og það er ekki boðlegt. Við eigum að gera betur og það er staðreynd."

Hvað þarf að breytast til að ná fram sigri gegn KR á fimmtudag?

„Við þurfum að berja okkur saman og taka meiri ábyrgð alls staðar á vellinum. Við þurfum núna að sýna að við erum með alvöru liðsheild og berjumst fyrir hvorn annan," sagði Leifur Andri í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert