ÍR og Njarðvík skildu jöfn, 1:1, í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Breiðholtinu í dag.
Oumar Diouck braut ísinn fyrir Njarðvík á 59. mínútu. Kenneth Hogg kom með sendingu inn á teiginn sem Diouck náði að pota í netið.
Fyrirliðinn Marc Mcausland jafnaði metin fyrir ÍR á 80. mínútu þegar hann náði að koma boltanum í netið í kjölfar hornspyrnu. Lokaniðurstöður voru því 1:1 jafntefli.
Njarðvík situr í fjórða sæti með 28 stig, jafn mörg stig og ÍR sem situr í fimmta sæti.
Keflavík fékk Dalvík/Reyni í heimsókn. Leikar enduðu með 3:1 sigri Keflvíkinga.
Eftir rúman hálftímaleik gaf Mihael Mladen Keflvíkingum forystuna. Staðan 1:0, Keflavík í vil í hálfleik.
Amin Guerrero Touiki jafnaði fyrir Dalvíkinga snemma í síðari hálfleik með góðum skalla af stuttu færi.
Mladen kom Keflavík yfir á 61. Mínútu með öðru marki sínu. 10 mínútum síðar gulltryggði Kári Sigfússon sigur Keflvíkinga með marki, 3:1.
Keflavík er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig en Dalvík/Reynir er í næst neðsta sæti með 13 stig.
Grindavík og Leiknir gerðu dramatískt jafntefli, 3:3, í Safamýrinni í dag.
Róbert Hauksson kom Leikni yfir á 36. mínútu. Sindri Björnsson tvöfaldaði forystu Leiknis á 50. mínútu.
Ion Perelló minnkaði muninn fyrir Grindavík á 60. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Omar Sowe þriðja mark Leiknismanna og virtist vera að gera út um leikinn.
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson náði að minnka muninn í 3:2 á 89. mínútu fyrir Grindavík. Daniel Arnaud Ndi jafnaði síðan metin fyrir Grindavík á þriðju mínútu í uppbótartíma, 3:3.
Úrslitin þýða að Leiknir er í 10. sæti með 18 stig en Grindavík er í áttunda sæti með 21 stig.