Þetta er svo geggjað

Þorsteinn Aron Antonsson úr HK og Emil Ásmundsson hjá Fylki …
Þorsteinn Aron Antonsson úr HK og Emil Ásmundsson hjá Fylki eigast við í kvöld. mbl.is/Hákon

Fylkir gerði góða ferð í Kórinn í kvöld þegar liðið vann HK 2:0 í Bestu deildinni í fótbolta. Fylkismenn voru manni færri nánast allan síðari hálfleikinn en það kom ekki að sök. Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis var að vonum stoltur af sínum mönnum þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.

„Gríðarleg vinnusemi og karakter eftir að við lendum manni undir. Eftir það skorum við tvö mörk og höldum markinu hreinu. Þetta er frábær frammistaða hjá mínu liði.

Við vorum fínir í fyrri hálfleik og skerptum á nokkrum hlutum í hálfleik. Fengum síðan þetta rauða spjald í andlitið í byrjun síðari hálfleiks. Við gáfumst samt ekki upp og héldum áfram að spila okkar leik. Við þurftum þennan sigur og gátum ekki bakkað í vörn. Það var ekki að sjá að við værum einum færri,“ sagði Rúnar.

Rúnar Páll Sigmundsson
Rúnar Páll Sigmundsson Eggert Jóhannesson

Ef við förum yfir mörkin. Emil Ásmundsson og Þórður Gunnar Hafþórsson sjá um að skapa mark númer eitt. Síðan gerir þú skiptingar og tekur þá báða út af en þá kemur bara eitt sett af varamönnum sem skapar mark númer tvö og þar á ég við Þórodd Víkingsson og Stefán Gísla Stefánsson. Var ekkert áhættusamt að taka heitu leikmennina út af eftir að þeir sköpuðu fyrra markið?

„Þetta er svo geggjað. Þetta er svo gott fyrir okkur Fylkisfólkið að okkar strákar komi inn á og leggi sig svona fram og standi sig. Þetta stækkar hópinn okkar enn þá meira. Þetta sýnir bara liðsheilda og hvað hún skiptir miklu máli."

Þið hafið sætaskipti við HK og eruð ekki lengur á botninum. Hvernig sérðu framhaldið fyrir þér?

„Það lítur vel út. Það eru þrír leikir eftir í deild og svo aðrir fimm í úrslitakeppninni. Þannig að það eru átta leikir og búinn að vera fínn bragur á okkur undanfarið og gríðarlega mikilvægt að vinna þennan leik.

Næsti leikur er FH á heimavelli og við erum sterkir á heimavelli og þann leik ætlum við að vinna. Síðan förum við vestur. En næsta mál er að vinna FH og þar ætlum við að eiga okkar besta leik til þessa," sagði Rúnar Páll í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert