HK og Fylkir áttust við í 19. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri gestanna úr Fylki, 2:0. Leikið var í Kórnum í sannkölluðum fallbaráttuslag.
Leikurinn fór rólega af stað og áttu leikmenn Fylkis upphafsspyrnu leiksins. Það breyttist lítið og verður þessa leiks seint minnst fyrir stórtíðindi í fyrri hálfleiknum.
Liðin virtust varkár í aðgerðum sínum og má segja að fyrri hálfleikurinn hafi helst minnt á úrslitaleik þar sem hvorugt liðið þorði að taka áhættu.
Það komu þó nokkur færi í fyrri hálfleik og var það fyrsta á 28. mínútu þegar Atli Þór Jónsson átti skalla í þverslá eftir fyrirgjöf fyrir mark Fylkismanna.
Á 37. mínútu sóttu gestirnir úr Fylki í sig veðrið og átti Emil Ásmundsson fínt skot fram hjá. Hann var síðan aftur á ferðinni rúmlega mínútu síðar þegar skot hans fór í varnarmann og aftur fyrir endamörk.
Á 45. mínútu kom líklega besta færi fyrri hálfleiks þegar skot Arnþórs Breka Ásþórssonar fór af varnarmanni HK og breytti um stefnu. Cristoffer Petersen í marki HK lenti í vandræðum með að verja boltann en tókst það þó og hreinsuðu varnarmenn HK vörslu hans í hornspyrnu.
Fleiri urðu færin ekki í fyrri hálfleik og var staðan 0:0 í hálfleik.
Síðari hálfleikur fór ágætlega af stað og voru það leikmenn Fylkis sem ógnuðu meira framan af. Það breyttist þó á 53. mínútu þegar Halldór Jón Sigurður Þórðarson, framherji Fylkis, fékk að líta rauða spjaldið eftir að hafa hrint George Nunn.
Eftir þetta sóttu leikmenn HK í sig veðrið og ógnuðu talsvert þó svo að alvöru færi hafi ekki litið dagsins ljós. Á 74. mínútu komst varamaðurinn Eiður Gauti Sæbjörnsson í dauðafæri þegar skalli hans fór rétt yfir markið.
Fyrir þetta refsuðu leikmenn Fylkis því í næstu sókn tókst Emil Ásmundssyni að skora eftir að Þórður Gunnar Hafþórsson lék á Brynjar Snæ Pálsson og Þorstein Aron Antonsson og gaf síðan boltann út í teiginn á Emil sem skoraði fram hjá Christoffer Petersen í marki HK.
Strax í næstu sókn gerðu leikmenn HK harða atlögu að marki Fylkis en Ólafur Kristófer varði vel í tvígang.
Leikmenn Fylkis voru ekki hættir. Á 86. mínútu tvöfölduðu gestirnir forystuna þegar Þóroddur Víkingsson skaut viðstöðulaust eftir fyrirgjöf frá Stefáni Gísla Stefánssyni. Staðan var 2:0 fyrir Fylki.
Með sigri Fylkismanna fara þeir upp fyrir HK af botni deildarinnar og eru með 16 stig eftir 19 leiki en HK er á botni deildarinnar með 14 stig eftir 18 leiki en HK á eftir leik gegn KR sem var frestað á dögunum.