Dramatískt jafntefli í Kaplakrika

Birkir Már Sævarsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson fagna marki þess …
Birkir Már Sævarsson og Tryggvi Hrafn Haraldsson fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

FH og Valur áttust við í 19 umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld og lauk leiknum með 2:2 jafntefli þar sem tvö mörk komu í uppbótartíma.

Valsmenn eru með 32 stig í þriðja sætinu en FH er með 29 stig, einu stigi á undan ÍA sem er að spila við Víking í kvöld.

Leikurinn fór rólega af stað og gerðist ekkert markvert fyrstu 14 mínútur leiksins eða allt þar til Sigurður Bjartur Hallsson leikmaður FH fékk sendingu frá Kristjáni Flóka Finnbogasyni og skaut boltanum í stöng. Dauðafæri fyrir FH.

Það voru hinsvegar Valsmenn sem náðu forystunni í leiknum á 18. mínútu leiksins þegar Birkir Már Sævarsson gaf boltann fyrir markið þar sem varnarmenn FH sváfu á verðinum og fékk Tryggvi Hrafn Haraldsson úrvalsfæri til að koma boltanum í netið og það gerði hann. Staðan 1:0 fyrir Val.

Á 32. mínútu leiksins fékk Logi Hrafn Róbertsson fínt færi fyrir FH þegar hann fékk boltann fyrir utan teig og skaut að marki Valsmanna en Ögmundur Kristinsson varði vel þrátt fyrir að hafa séð boltann seint.

Lítið annað gerðist í fyrri hálfleik og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 1:0 fyrir Val.

Síðari hálfleikur byrjaði mun betur en sá fyrri. Valsmenn fengu hornspyrnu strax á 46. mínútu sem ekkert varð úr.

Í kjölfarið fóru leikmenn FH að sækja meira og stífar að marki Valsmanna og uppskáru hverja hornspyrnuna á fætur annari. Á 49. mínútu leiksins átti Ísak Óli Ólafsson fínan skalla framhjá marki Valsmanna.

Birkir Már Sævarsson og Sigurður Bjartur Hallsson eigast við í …
Birkir Már Sævarsson og Sigurður Bjartur Hallsson eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á 53. mínútu fékk Björn Daníel Sverrisson dauðafæri þegar Ögmundur varði frá honum. Kristján Flóki Finnbogason fékk boltann til sín en skalli hans fór af varnarmanni og yfir markið. Hornspyrna niðurstaðan.

Á 60. mínútu átti Kristján Flóki aftur skot sem fór af varnarmanni og aftur fyrir endamörk. Hornspyrna. Upp úr hornspyrnunni rataði boltinn út fyrir teig þar sem Ingimar Torbjörnsson Stöle skaut föstu skoti fyrir utan teiginn en Ögmundur rétt náði að verja skotið í þverslána.

Það var stutt á milli því strax á 64. mínútu fékk Patrick Pedersen fínt færi en Sindri Kristinn Ólafsson markvörður FH varði vel.

Á 85. mínútu leiksins kom næsta færi. Þá keyrði Kjartan Kári Halldórsson upp að teig Valsmanna og skaut í varnarmann og þaðan fór boltinn aftur fyrir endamörk og hornspyrna dæmd.

Úr hornspyrnunni fékk Bjarni Guðjón boltann og skallaði að marki en boltinn fór í varnarmann.

Leikmenn héldu áfram að reyna ná fram jöfnunarmarkinu og það tókst á 88. mínútu leiksins þegar Arnór Borg Guðjohnsen átti skalla að marki valsmanna sem Ögmundur varði vel en Sigurður Bjartur Hallsson var réttur maður á réttum stað og fylgdi skallanum eftir með marki. Staðan 1:1.

Elías Ingi Árnason dómari leiksins bætti 9 mínútum við venjulegan leiktíma og því var nægur tími til að koma inn öðru marki fyrir annað hvort liðið.

Arnór Borg Guðjohnsen reyndi að skora sigurmarkið þegar fjórar mínútur voru liðnar af viðbótartímanum en Ögmundur varði gott skot hans.

Valsmenn brunuðu í sókn og Birkir Már Sævarsson gaf boltann fyrir markið. Boltinn hrökk af varnarmanni fyrir fæturnar á Kristni Frey Sigurðssyni sem skoraði glæsilegt mark. Staðan 2:1 fyrir Val sem töldu sig hafa verið að skora sigurmarkið.

Það var aldeildis ekki þannig því þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma jöfnuðu leikmenn FH og var þar að verki fyrirliðinn Björn Daníel Sverrisson. Ísak Óli Ólafsson skallaði þvert fyrir markið og Björn Daníel skoraði laglegt mark. Staðan 2:2.

Fleiri urðu mörkin ekki og jafntefli staðreynd í Kaplakrika.

FH 2:2 Valur opna loka
90. mín. 9 mínútum bætt við leiktímann. Það er því nóg eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert