Líður eins og við höfum tapað þessum leik

Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Heimir Guðjónsson þjálfari FH var ekki sáttur við úrslitin gegn Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en liðin skildu jöfn, 2:2. Mbl.is ræddi við Heimi strax eftir leik.

Ertu sáttur við þessi úrslit í kvöld?

„Nei, við erum ekki sáttir við jafntefli á heimavelli. En úr því sem komið var þar sem þeir komast yfir á 94. mínútu þá sýndum við karakter með því að jafna áður en leikurinn kláraðist.

En mér líður eins og við höfum tapað þessum leik af því að mér fannst við miklu betri í þessum leik, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem var bara eitt lið á vellinum. Þetta er svolítil endurtekning á fyrri leiknum á Hlíðarenda þegar við vorum miklu betri stærstan hluta leiksins. Því miður náðum við ekki að breyta þessum tveimur leikjum í sigurleiki,“ sagði Heimir.

Fyrri hálfleikur var dapur hjá báðum liðum þrátt fyrir mikla baráttu. Síðan kemur þetta eina mark en í síðari hálfleik þá mætir allt annað FH-lið á völlinn og þið dóminerið leikinn ekki satt?

„Jú, þeir bökkuðu og við náðum stjórn á leiknum ásamt því að við vorum betri með boltann í síðari hálfleik. Við vorum að fá góðar stöður á vængjunum og náðum flottum fyrirgjöfum. Síðan voru innkomyr Arnórs Borg og Vuks frábærar,“ sagði hann.

Næsti leikur hjá ykkur er á móti Fylki. Þegar ég ræddi við Rúnar Pál þjálfara Fylkis í gær þá sagði hann að Fylkir myndi spila sinn besta leik í sumar á sunnudag og vinna FH. Þú ert væntanlega ekki sammála því?

„Nei, en ég ætla að gefa Rúnari Páli það, sem ég er búinn að þekkja lengi, að hann talar svo mikið að maður nær ekkert utan um hvað hann er búinn að segja. En ég get lofað honum því að við verðum klárir gegn Fylki á sunnudag.“

Er eitthvað sérstakt sem þú vilt sjá þína menn laga fyrir næsta leik?

„Já kannski að vera aðeins rólegri upp við markið og síðan megum við ekki missa einbeitingu líkt og gerðist í seinna markinu,” sagði Heimir að lokum í samtali við mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert