ÍA vann gífurlega sterkan sigur á Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík, 2:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Víkingsvelli í Fossvogi í kvöld.
ÍA er þar með fyrsta liðið til að sigra Víking í Fossvoginum á tímabilinu.
Víkingur er enn í toppsætinu með 40 stig en Breiðablik er búið að jafna Víking að stigum. ÍA er í fjórða sæti með 31 stig, stigi á eftir Val.
Valdimar Þór Ingimundarson kom Víkingi yfir á sjöttu mínútu leiksins með góðu skallamarki eftir frábæra fyrirgjöf frá Óskari Erni Haukssyni, 1:0.
Skagamenn voru ekki lengi að jafna því aðeins þremur mínútum síðar kom Hinrik Harðarson boltanum á Inga Þór Sigurðsson sem afgreiddi færið með glæsibrag, 1:1.
Viktor Jónsson kom Skagamönnum yfir á 38. mínútu leiksins. Þá voru hann og Hinrik Harðarson einir gegn Oliver Ekroth. Hinrik renndi boltanum á Viktor sem skoraði í opið, 1:2.
Víkingar gerðu heilar fjórar breytingar í hálfleik og voru sprækari fyrir vikið.
Aron Elís Þrándarson fékk algjört dauðafæri á 75. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann í teig Skagamanna. Aron setti boltann hins vegar í utanverða stöngina.
Valdimar Þór fékk svo dauðafæri undir blálok leiks en Hilmar Elís Hilmarsson bjargaði glæsilega á línu.
Víkingur mætir UE Santa Coloma frá Andorra í umspili um sæti í Sambandsdeildinni á fimmtudaginn kemur. ÍA fær Breiðablik í heimsókn næstu helgi.